10.05.2016 09:20

Trausti EA 98 - Sá flottasti í strandveiðiflotanum

Trausti EA 98 er byrjaður á strandveiðum og landaði á Siglufirði í dag. Trausti EA var smíðaður árið 1954 og eru því 62 ár síðan að báturinn var smíðaður á Akureyri . Báturinn er einn sá glæsilegasti sem gerður er út í dag og er hann eins og mubla að sjá .

 

09.05.2016 10:00

Gullhólmi SH 201

Hér eru tvær myndir frá 23. nóvember síðastliðnum af Gullhólma SH 201 en þetta var næst síðasta löndunin hjá bátnum á Siglufirði áður en hann hélt heim á leið. 

 

Á vef Fiskistofu má sjá að aflinn var tæpt 21 tonn :

Fisktegund Óslægt Slægt Til kvóta Undirmál Útfl.álag Linuívilnun VS-afli
Ufsi 21 18 18        
Ýsa 864 726 726        
Keila 131 118 118        
Hlýri 211 190          
Þorskur 18.321 15.390 15.150 240      
Grálúða 1.078 992 992        
Steinbítur 7 6 6        
Karfi / Gullkarfi 147   147        
Samtals 20.780  

 

 

08.05.2016 09:50

Gunnvör RE 81 - Umfjöllun um sögu og strand skipsins

Vélskipið Gunnvör SI 81 var skráð á íslenska skipaskrá á árinu 1939 samkvæmt sjómannaalmanaki Fiskifélags Íslands árið 1940 og er þá skráð í eigu Ingvars Guðjónssonar o.fl  á Siglufirði.  Skipið var smíðað í Lowestoft í Englandi árið 1925 úr eik og furu og hafði borið nafnið Merit áður en það kom hingað til lands.  Gunnvör var 26,91 meter á lengd,  6,12 metrar á breidd, dýptin var 2,95 metrar og mældist 102 rúmlestir brúttó.   Í skipinu var Wichmann vél 163 hestöfl að stærð og var hún sett í skipið árið 1939.   Samkvæmt skipaskrá í lok árs 1942 ber skipið  skráningarnúmerið RE 81 og er skráður eigandi Hervör hf. í Reykjavík. 

Mynd : Úr safni Héraðsskjalasafni Fjallabyggðar

 

Í Morgunblaðinu sagði þann 22.janúar 1949 " Í gærkvöldi fórst vjelskipið Gunnvör frá Siglufirði, á einum hættulegasta strandstað hjer við land, Kögrinu austan við Fljótavík á Hornströndum.  Áhöfn bátsins sjö manns , björguðu skipverjar á togaranum Agli Skallagrímssyni frá Reykjavík.

Strax og Gunnvör strandaði kom leki að skipinu og sjó braut á því.  Í einu ólaginu sópaðist björgunarbátur skipsins af bátaþilfari.  Eftir því sem leið á kvöldið tók skipið að hallast meira og meira og stöðugt braut á því.

Kunnugir menn telja víst, að Gunnvöru muni ekki verða bjargað, því þarna er stórgrýtis urð og veður fór versnandi þar um slóðir í gærkvöldi. " 

Togarinn Egill Skallagrímsson var fyrstur skipa á vettvang og var klukkan þá um 20:00 . Taldi þá skipstjórinn á Gunnvöru að óhætt mundi að koma á björgunarbáti upp að Gunnvöru, og kvað sig hafa misst lífbát skipsins strax eftir strandið.  Varð það úr, að lífbátur var sendur frá b.v. Agli Skallagrímssyni, undir stjórn stýrimanns, útbúinn með línubyssu o.fl. tækjum.  Báturinn lagði frá Agli laust fyrir kl. 21 og eftir tæpan hálfan tíma tilkynnti skipstjórinn á Gunnvör, að báturinn væri kominn að hlið hennar, skipsmenn væru að fara í hann og hann væri að yfirgefa talstöðina.  Um kl. 22 var svo björguninni að fullu lokið og áhöfn Gunnvarar, 7 menn, komnir um borð í Egil heilu og höldnu.  Á leið bátsins milli skipanna aðstoðuðu b.v. Hvalfell og m.b. Hafdís með því að lýsa upp leiðina með ljóskösturum sínum.  M.b. Hafdís var um kyrrt á staðnum fram undir morgun næsta dags, og segja skipverjar á henni, að skömmu eftir að björgunin hafði tekizt, hafi aðstaða öll versnað svo að björgun af sjó hefði verið óhugsandi.  Þykir skipshöfn b.v Egils Skallagrímssonar hafa unnið þarna mikið afrek.  Skipstjóri Egils var Kolbeinn Sigurðsson, en skipstjóri m.s. Gunnvarar í þessari ferð var Ólafur Stefánsson.

Í  blaðinu Skutli, sem kom út 11. mars 1949 er smáklausa í dálki sem nefnist úr heimahögum og hljóðar hún svo:  " Sjóvátryggingafélag Íslands hefur nú selt flakið af m.s. Gunnvör þar sem það liggur nú í fjörunni í Fljótavík.  Söluverð mun hafa verið rúmar 6 þús. kr.  Kaupendur voru þrír Ísfirðingar.  Undanfarna daga hefur verið unnið við að bjarga ýmsum verðmætum úr skipinu "

Kaupendurnir að flakinu voru bræðurnir Jóhann og Þórður Júlíussynir sem stofnuðu síðan ásamt eiginkonum sínum og hjónunum Jóni B. Jónssyni og Helgu Engilbertsdóttur árið 1955 útgerðarfélag, sem bar heitið Gunnvör hf. og lét byggja fyrir sig samnefnt skip árið 1956. Nafn félagsins var sótt í samnefnt skip sem strandaði í Fljótavík í janúar 1949.

 

Heimildir : Tímarit.is og Fljótavík.is

07.05.2016 14:35

Gullberg VE 292

Hér er mynd sem Þiðrik Unason tók síðasta vor í Vestmannaeyjum af Gullberg VE 292

Mynd : Þiðrik Unason

 

Í skipaskrá Fiskifrétta segir meðal annars um Gullberg VE

Smíði

Smíðaár 2000
Smíðastaður Vågland noregur
Smíðaland Noregur
Smíðastöð Vågland båtbyggeri a/s
Smíðanúmer 129
Efniviður Stál

06.05.2016 07:45

Gulltoppur GK 24

Hér er mynd af Gulltopp GK 24 sem ég tók í síðasta mánuði en Gulltoppur hélt heim til Grindavíkur um miðjan síðasta mánuð eftir að hafa verið á Siglufirði frá 27. febrúar.

 

Gulltoppur GK er í eigu Stakkavíkur og var smíðaður árið 1976 á Seyðisfirði.

05.05.2016 11:25

Garðar BA 64 - Umfjöllun um elsta stálbát Íslands

Á Síldarminjasafninu á Siglufirði er líkan af elsta stálbáti Íslendinga , Garðari BA 64 . Líkanið smíðaði Ólafur Jakob Helgason og er það varðveitt á Síldarminjasafninu eins og áður segir. 

Garðar BA er 179 lesta stálbátur sem smíðaður var hjá Askers Mek skipasmíðastöðinni í Noregi árið 1912 til hvalveiða .
Er bátnum var hleypt af stokkunum í Noregi var hann rúmlega 30 metra langur, yfir 6 metra breiður og risti tæplega 3,5 metra. Hann var tvímastraður og seglbúinn, en með gufuvél til að nota í lognviðri. Þá fékk hann nafnið Globe IV. Globe IV var gerður út á hvalveiðar í Suður-Íshafi en hann var sérstaklega styrktur til Íshafssiglinga. Hann var svo seldur til Hvalveiðifélagsins Áir í Þórshöfn í Færeyjum 1936 og hlaut þar nafnið Falkur. Þar var hann notaður aðallega til að draga hval, fremur en að veiða hann.

 

Báturinn kom svo hingað til lands 20. janúar 1945. Hingað kominn hlaut hann nafnið Siglunes SI 89. Kaupandinn var Hlutafélagið Siglunes (Eigendur voru Áki og Jakob Jakobssynir) á Siglufirði sem strax lét gera á bátnum stórviðgerð. Var það gert sama ár af Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði og vélsmiðjunni Kletti. Allt var tekið úr honum; gufuvélin, brúin, keisinn, kolaboxið, tankarnir, lúkarinn, skrúfan, öxullinn. Þá var sett í bátinn 378 ha Ruston Hornsby dieselvél, var hún snarvend, 7 strokka, 4 takta og loftræst. Sett voru um 6 tonn af steypu í kjölinn vegna þyngdarmunar gufuvélarinnar og dieselvélarinnar. Lunningar voru hækkaðar, nýr keis, ný brú og bátapallur settur á hann. Bjargbátur og vikabátur voru settir sinn hvorum megin á pallinn. Fjölmargt annað var gert; m.a. var skrokkurinn endurnýjaður þar sem þurfti; nýtt öxuldrifið spil var sett í hann; tveir segulkompásar voru settir í, ásamt regnmæli, sökkum, bergmálsdýptarmæli og talstöð; vistarverur voru endurnýjaðar, m.a. 19 kojur og bekkir. Siglunesið var svo gert út á síldveiðar en einnig á línu.

Það var selt 21. október 1952 til Skeggja hf (Eig: Jón Sigurðsson) í Reykjavík sem skírði skipið Sigurður Pétur RE 186. Þá var sett í hann nýtt stýri en það gamla var keðjudrifið og erfitt í meðförum. Í eigu Skeggja var hann gerður út á síld-, línu- og netaveiðar. Sigurður Pétur skemmdist mikið í aftakaveðri 1958 en honum hafði verið lagt milli tveggja stærri báta. Klemmdist hann illa og þurfti að skipta um 28 plötur í byrðingnum. Stutta stund var hann svo í eigu Einars Sigurðssonar í Vestmannaeyjum.

 

14. júlí 1962 var hann seldur til Skeggja hf á Siglufirði sem skírði hann Hringsjá SI 94.  Seldur var hann svo aftur suður 1963 og var kaupandinn Skeggi hf (Eig: Þórarinn Sigurðsson) í Garðahreppi. Hann var endurskírður og nefndist þá Garðar GK 175. Árið 1964 var í Reykjavík sett í bátinn 495 hestafla og 750 snúninga Lister dieselvél í stað gömlu vélarinnar. Þá var og settur í hann nýr radar, kraftblökk og spil. Einnig voru davíðurnar teknar af honum, afturmastrið einnig og nótinni komið fyrir á bátadekkinu. Nú var Garðar orðinn aflaskip hið mesta og kallaður "Strætisvagninn" á Hornafirði, svo reglulega landaði hann þar síldinni. En þá brustu veiðarnar og tekið var til bragðs að gera Garðar út á þorsk. En það gekk ekki og lenti reksturinn í miklum erfiðleikum.

Enn var hann seldur, að þessu sinni til Reykjavíkur árið 1967 og var kaupandinn Halldór Snorrason sem keypti bátinn af Útvegsbankanum, en bankinn eignaðist hann er Skeggi fór á hausinn. Þá hét hann Garðar RE 9. Báturinn var þá endurmældur og var 158 brúttólestir. Hann var þá gerður út á línu og net að mestu yfir vetrarmánuðina og línu á sumrin. Línuútgerðin reyndist ekki vel og var hann þá á humartrolli á sumrin.

Loks var báturinn seldur 1974 Patreki hf (Eig:  Jón Magnússon) á Patreksfirði og hélt enn nafninu, en var nú BA 64. Í hans umsjá fiskaði Garðar vel og var oft með aflahæstu bátum vertíðanna. Bæði var hann gerður út á línu og net. Jón setti á bátinn nýja og stærri brú og í hana Simrad fisksjá með stokkara, Simrad asdiktæki, Funirod radar og Koden litasjá.

Loks var Garðar BA 64 dæmdur ónýtur, tekinn af skrá 1. desember 1981 og svo siglt á land og í sátur í Skápadal. Farvegur var grafinn inn í sandfjöruna á lágfjöru, síðan var honum siglt inn á háflóði og loks var fyllt að.

04.05.2016 07:25

Petra ÓF 88 - Grásleppusjómenn byrjaðir að draga upp

Grásleppusjómenn á Siglufirði eru byrjaðir að draga upp netin og voru félagarnir Haraldur Hermannsson og Baldvin Kárason að ganga frá netunum um borð í Petru ÓF 88 á dögunum þegar að ég átti leið hjá.

 
 

03.05.2016 07:40

Sigurbjörg ÓF & Múlaberg SI í heimahöfn

Sigurbjörg ÓF 1 og Múlaberg SI 22 lágu við Togarabryggjuna á Siglufirði í gær en landað var úr Múlaberginu í gær um 20 tonnum af rækju og um 10 tonnum af þorski. Landað var úr Sigurbjörginni á laugardaginn (Sjá HÉR)

Sigurbjörg ÓF heldur til veiða síðar í dag .

 

Myndin er tekin út um eldhúsgluggann heima í gærkveldi.

02.05.2016 07:40

Strandveiðivertíðin hafin !

Strandveiðivertíðin er hafin og er fjöldi báta á sjó í dag . Landsamband Smábátaeiganda taldi að um 400 bátar myndu hefja veiðar í dag.

Strandveiðar hófust fyrst í júní 2009 og máttu þá smábátasjómenn veiða 4.000 tonn á tímabilinu maí - ágúst. Á komandi vertíð verður leyfilegur heildarafli 9.000 tonn og er það aukning um 400 tonn frá fyrra ári. Reikna má með að útgefin veiðileyfi verði rúmlega 700.

Við úthlutun aflaheimilda er byggt á svæðaskiptingu; svæði A) nær frá A. Eyja- og Miklaholtshreppi til Súðavíkurhrepps, svæði B) nær frá Strandabyggð til Grýtubakkahrepps, svæði C) nær frá Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps og svæði D) nær frá Hornafirði til Borgarbyggðar.

 

Breytingar verða á úthlutun í ár, einkum á tveimur svæðum. Svæði A sem nær frá Snæfellsnesi til Súðavíkur fær 550 tonnum meira í sinn hlut  í ár en í fyrra, samtals 3410 tonn. Svæði D sem nær frá Hornafirði til Borgarbyggðar fær hins vegar úthlutað 200 tonnum minna nú en í fyrra, eða samtals 1300 tonnum.

Önnur ákvæði um veiðidaga, hámarksafla á dag og fjölda handfærarúlla verða óbreytt frá fyrri árum.  

01.05.2016 12:00

Hafliði SI 2 - 4 myndir og saga skipsins

Ég sagði frá því á dögunum (10.apríl - Dagný SI 7) að ég hefði fengið nokkrar myndir lánaðar á Héraðsskjalasafni Fjallabyggðar og skannað þær inn .

Í dag fáum við að sjá 4 myndir af síðutogaranum Hafliða SI 2 koma að bryggju á Siglufirði. Ekki veit ég hver tók myndirnar né hvaða ár þær eru teknar. 

Á vefsíðunni si2.is segir meðal annars um Hafliða "Hann hét áður Garðar Þorsteinsson GK og var smíðaður hjá skipasmíðastöðinni Cook, Gemmel og Welton í Beverley í Englandi fyrir hlutafélagið Hrímfaxi og Sviði h/f í Hafnarfirði.
Skipið var eitt af tíu skipum sem íslendingar létu smíða hjá Cook, Gemmel og Welton. Það var 722 brúttótonn, 252 nettó. 184,1 fet á lengd og 30,1 á breidd. Vélin var olíudrifin gufuvél frá C. D. Holmes, 1250 IHP og gekk skipið 13,1 sjómílu í reynslusiglingu.
Fjögur önnur skip virðast hafa verið eins og Garðar Þorsteinsson, þ.e. mál þeirra eru þau sömu. Þau voru: Skúli Magnússon RE, en vélin í honum var 1000 hö., Jón Forseti RE, Röðull GK og Fylkir RE. Hin skipin fimm sem smíðuð voru: Akurey RE, Hvalfell VE, Geir RE, Goðanes NK og Ísborg ÍS., voru mun minni en Garðar Þorsteinsson, t.d. var Akurey 10 fetum styttri.
"

Mynd : Úr safni Héraðsskjalasafns Fjallabyggðar - Ljósmyndari ókunnur

 

Þann 28. janúar 1948 var Garðari Þorsteinssyni, smíðanúmer 790, hleypt af stokkunum og 12. júní 1948 var skipið afhent frá stöðinni.

Mynd : Úr safni Héraðsskjalasafns Fjallabyggðar - Ljósmyndari ókunnur

 

Árið 1951 eignaðist Bæjarútgerð Sigufjarðar Garðar Þorsteinsson GK og fær þá skipið nafnið Hafliði SI .

Í nóvember 1964 var stofnað útgerðarfélag Siglufjarðarbæjar og Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði. Hlaut félagið nafnið Útgerðarfélag Siglufjarðar h.f. Með stofnun þessa nýja útgerðarfélags var Bæjarútgerð Siglufjarðar lögð niður, enda tekur Útgerðarfélag Siglufjarðar h.f. við öllum eignum og skuldum bæjarútgerðarinnar. Tilgangur þessa nýja félags er að reka b.v. Hafliða og kaupa og reka 2-3 fiskibáta

Mynd : Úr safni Héraðsskjalasafns Fjallabyggðar - Ljósmyndari ókunnur

 

Þann 8 desember 1972 sökk Hafliði SI við bryggju á Siglufirði.  Miklar skemmdir urðu á skipinu og voru vélar þess dæmdar ónýtar. Í kjölfar þessa fóru fram sjópróf á Siglufiðri um aðdraganda þess að togarinn sökk. Fróðir menn munu hafa varað umsjónarmenn togarans, sem lagt hafði verið við höfnina um tíma, að bilaður einstefnuloki væri á síðu hans og því gæti svo farið. Ábendingunum var ekki sinnt og svo fór sem fór. Þegar togarann tók að halla af völdum mikils snjós sem hlaðist hafði upp á bakborðshlið togarans rann sjórinn óhindrað inn í vélarrúm hans. 

Þegar afturhluti togarans náði botnfestu við bryggjuna slitnuðu landsfestar frá honum. Síðar þessa nótt var búið að dæla öllum sjó úr vélarrúminu.

Árið 1973 var Hafliði seldur til niðurrifs til W. H. Arnott Young & co. Ltd. Í Dalmuir í Skotlandi. Dráttarbáturinn Goðinn dróg Hafliða yfir hafið og þann 15. júní 1973 kom Hafliði til Greenock  í Skotlandi til niðurrifs og lauk þar með sögu þessa merka skips.

Mynd : Úr safni Héraðsskjalasafns Fjallabyggðar - Ljósmyndari ókunnur

 

Heimildir : www.si2.is , sksiglo.is og Sveinn Björnsson

30.04.2016 10:45

Sigurbjörg ÓF 1 landar á Siglufirði

Þessa stundina er verið að landa úr Sigurbjörginni rúmlega 100 tonnum af frosnum afurðum , þar sem þorskur og ufsi er uppistaða aflans.

Millilandað var úr Sigurbjörginni þann 20 apríl síðastliðinn og má sjá umfjöllun um það HÉR

Myndin var tekin þann 20. apríl þegar að landað var úr Sigurbjörginni

29.04.2016 09:25

Mánaberg ÓF 42 landar á Siglufirði

Þessa stundina er verið að landa úr Mánaberginu um 180 tonnum af frosnum afurðum , þar sem ufsi er uppistaða aflans eða rúm 90 tonn . 

 
 

 

28.04.2016 09:35

Oddverji SI 76 - Grásleppusjómenn byrjaðir að draga upp

Grásleppusjómenn á Siglufirði eru byrjaðir að draga upp netin og voru bræðurnir Guðmundur Óli og Oddur Sigurðsynir að ganga frá netunum í gær um borð í Oddverja SI 76

 
 

Oddverji SI var smíðaður hjá Mótun í Njarðvík árið 2001

27.04.2016 08:45

Skáley SK 32 - 3 myndir

Hér eru þrjár myndir sem Þiðrik Unason tók á Hofsós í gær af Skáley SK 32 koma að bryggju.

Mynd : Þiðrik Unason

 

Mynd : Þiðrik Unason

 

Mynd : Þiðrik Unason

 

26.04.2016 13:30

Kaldbakur EA 1

Kaldbakur EA 1 lá við bryggju á Akureyri á dögunum þegar að ég átti þar leið um . Ætli þetta hafi ekki verið í þriðja sinn sem ég nái að mynda Kaldbak síðan að ég byrjaði í þessu myndastússi. Þær myndir má sjá HÉR og HÉR

 

Í skipaskrá Fiskifrétta segir meðal annars um Kaldbak EA :

Smíði

Smíðaár 1974
Smíðastaður Pasajes spánn
Smíðaland Spánn
Smíðastöð Astillaros luzuriaga
Smíðanúmer 313
Efniviður Stál
Flettingar í dag: 225
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 292
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 2491567
Samtals gestir: 546530
Tölur uppfærðar: 19.1.2019 21:28:27

Nafn:

Guðmundur Gauti Sveinsson

Farsími:

868-9333

Afmælisdagur:

25.08.1983

Heimilisfang:

Hávegur 26

Staðsetning:

Siglufjörður

Tenglar