22.03.2016 18:00

Sigurbjörg ÓF 1 landar á Siglufirði

Landað var um 190 tonnum úr Sigurbjörg ÓF 1 á Siglufirði í dag. Uppistaða aflans var karfi , eða um 120 tonn . 

 

Var þetta millilöndun en áætluð brottför er um kl.19:00 í kvöld.

21.03.2016 12:35

Múlaberg SI 22 að byrja á rækju á ný

Múlaberg SI 22 hefur nú lokið veiðum á botnvörpu og hafa síðustu dagar verið notaðir í að gera skipið klárt á rækjuveiðar að nýju. 

 

20.03.2016 18:50

Sigurborg SH 12 - Góð rækjuveiði

Mjög góð rækjuveiði hefur verið síðustu vikur og hefur Sigurborg SH landað um 110 tonnum af rækju í síðustu 4 túrum.

Hér er Sigurborg SH 19 á útleið frá Siglufirði þann 3. mars síðastliðinn.

 

k

19.03.2016 12:25

Lukka ÓF 57

Eins og ég sagði frá í gær , þá hefur verið mjög góð veiði á línubátunum sem gera út frá Siglufirði. Hér er Lukka ÓF að landa tæpum 6 tonnum á fimmtudaginn sl.

 

 

18.03.2016 12:55

Oddur á Nesi ÓF 176 - Góð veiði hjá línubátunum

Mjög góð veiði hefur verið hjá línubátunum sem gera út frá Siglufirði síðustu daga. Í gær kom Oddur á Nesi í land með um 9,3 tonn og eins og sjá má á myndinni ber báturinn aflann mjög vel . 

 

 

17.03.2016 10:00

Ályktun um ákvörðun ráðherra - Myndir frá fundinum í gærkveldi

Formenn Skalla og Drangeyjar boðuðu félagsmenn sína til fundar í gærkveldi á Kaffi Krók á Sauðárkrók . Á fundinum var ákvörðun sjávarútvegsráðherra um frestun á grásleppuvertíðinni til umræðu.  
Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var boðið til fundar en hann boðaði forföll .

Örn Pálsson framkvæmdarstjóri LS og Halldór Ármannsson formaður LS upplýstu fundarmenn um stöðu mála en fundurinn var vel sóttur og sköpuðust góðar umræður um málefni grásleppusjómanna .

 

Í lok fundar ályktuðu fundarmenn eftirfarandi : 

Sameiginlegur fundur smábátaeigenda í Skalla og Drangey haldinn á Sauðárkróki 16. mars 2016 mótmælir harðlega gerræðislegri ákvörðun sjávarútvegsráðherra að seinka upphafstíma grásleppuvertíðar.

Í rökstuðningi með ákvörðuninni er þung ásökun um að grásleppusjómenn umgangist auðlindina ekki af ábyrgð.  Fundurinn vísar því til föðurhúsanna.

Harmað er það virðingarleysi sem atvinnugreininni er sýnd með tilkynningu með fimm daga fyrirvara um breyttan upphafstíma.

Fundurinn skorar á sjávarútvegsráðherra að virða rétt grásleppusjómanna og draga ákvörðun sína tafarlaust til baka.

Fleiri myndir frá fundinum má sjá hér fyrir neðan : 

 
 
 
 

 

16.03.2016 11:25

Helga María AK á leið í slipp - 4 myndir

Magnús Jónsson sendi mér þessar 4 myndir sem hann tók í gær þegar verið var að aðstoða Helgu Maríu AK að komast í slipp.

Mynd : Magnús Jónsson

 

Mynd : Magnús Jónsson

 

Mynd : Magnús Jónsson

 

Mynd : Magnús Jónsson
 

15.03.2016 19:30

Gulltoppur GK 24

Hér er mynd af Gulltopp GK við bryggju á Siglufirði , frá því á laugardaginn síðastliðinn þegar að brælan gekk yfir. 

 

14.03.2016 12:50

Hraði á logninu á Siglufirði um helgina

Ég rölti út á tröppur hjá mér á laugardaginn og tók þessar tvær myndir af logninu sem var á mikilli hraðferð .

Múlaberg SI liggur við Togararbryggjuna en eins og sjá má þá er stór krani á Hafnarbryggjunni en núna er endurbygging bryggjunar hafin. 

 
 

13.03.2016 14:15

Launaseðill háseta á Elliða SI - 60 ára

Arngrímur Jónsson birti á Facebook síðunni sinni á föstudaginn þessa mynd af launaseðli sem hann fékk fyrir störf sín um borð í síðutogaranum Elliða SI 1 fyrir 60 árum síðan . Á þessum tíma var Arngrímur , eða Addi Jóns eins og hann er kallaður , háseti um borð.

Addi varð síðar skipstjóri á Hafliða SI síðustu mánuðina meðan að hann var gerður út og síðar skipstjóri á Stálvík SI .

Ég hringdi í pabba í morgun til þess að fá smá upplýsingar og  sagði honum þá frá þessu launaseðli.

Hann sagði mér frá því að hann hefði verið pokamaður um borð í Elliða í þessum í túr , í fyrsta sinn , þá 21 árs . Þeir hefðu byrjað veiðar á Selvogsbanka og fengið um 100 tonn á tveimur sólarhringum en síðan lent í því að missa flottrollið á stýrið og rifið það allt í hengla.

Skipstjórinn Gísli Jónasson hafði þá fengið fregnir af því að Akureryrar togararnir hefðu verið að fiska mjög vel í austurkantinum við Grímsey og var stefnan tekin þangað. Þar lentu þeir í mokveiði , reyndar var uppistaða aflans smáþorskur , í kringum 50 cm. Þeir voru á veiðum í viku á Grímseyjarsundi og fylltu lestina og voru með mikinn afla á dekki. 

Þó að búið væri að fylla skipið og vel það , þá vildi útgerðin ekki að Elliði kæmi í land fyrr en eftir 1.maí  en Gísli skipstjóri tók ákvörðun um skipið væri orðið yfirfullt og lagði af stað í land að morgni 1.maí. 

Elliði var kominn með rúm 400 tonn af afla og var mjög siginn að framan og þegar að Gísli tók stefnuna heim , setur hann stefnuna í vestur og þarf að taka 180 gráðu beygju og við það lagðist Elliði nánast á hliðina , Gísli slóg þá af í hvelli og rétti hann af og síðan var beygjan tekin á mjög hægri ferð en veður var mjög gott . Á meðan að veiðum stóð fyrir norðan var mjög gott veður , logn og blíða . Þess vegna var hægt að hlaða skipið svona , en áætlað er að um 120 tonn hafi verið á dekki.

Elliði kom í land um kl. 14:00 þann 1. maí í óþökk útgerðarinnar sem ekki hafði viljað fá skipið inn fyrr en að morgni 2. maí.

Þessi túr var stærsti túrinn sem Elliði fékk á meðan hann var ofansjávar en Elliði sökk í febrúar árið 1962.

 
 

Mynd : Arngrímur Jónsson

 

12.03.2016 12:00

Jón Kristinn SI strandar

Hér eru tvær myndir sem Addi Þórs ( fishinghat.wordpress.com )tók í vikunni af Jón Kristinn SI 52 þar sem hann strandaði á sandhól í innri höfninni á Siglufirði.

Mynd : Arnþór Þórsson - fishinghat.wordpress.com

 

Mynd : Arnþór Þórsson - fishinghat.wordpress.com

 

11.03.2016 12:50

Berglín GK kemur inn til Siglufjarðar

Berglín GK 300 kom inn til Siglufjarðar í morgun til löndunar með nánast fullfermi.

Á vefnum Aflafréttir.is mátti lesa í gær að Berglín væri á toppnum á listanum yfir þau skip sem eru á botnvörpu með 226.8 tonn í tveimur túrum.

 
 

10.03.2016 12:55

Nýsmíði hjá Siglufjarðar Seig - Nýtt Akraberg

Ég skrapp á dögunum í heimsókn til strákanna í Siglufjarðar Seig með Bjarna Bragasyni útgerðarmanni , en hjá Siglufjarðar Seig er verið að smíða nýjan bát fyrir Bjarna sem mun fá nafnið Akraberg (að ég held)

Samkvæmt Bjarna verða þrír í áhöfn á bátnum , en báturinn verður útbúin beitningarvél en línan verður stokkuð upp í landi.

Stefnt er að því að báturinn verði tilbúinn um mánaðarmótin og mun ég gera honum nánari skil þegar að nær dregur afhendingu.

 
 
 
 

Hér er mynd af gamla Akraberginu sem ég tók sumarið 2014.

 

d

09.03.2016 12:10

Ein gömul : Skógafoss á Siglufirði

Ég dundaði mér við það í gær að skanna inn hluta af myndasafninu hans pabba og rakst þá á þessa mynd .

Á henni má sjá Skógafoss að ég held við bryggju á Siglufirði fyrir fjölda ára . 

Það væri gaman ef einhver fróður gæti frætt okkur aðeins um skipið og ekki skemmdi það fyrir ef einhver vissi deili á bílunum sem eru á bryggjunni.

Mynd : Úr safni Sveins Björnssonar

 

08.03.2016 09:15

Bjarni Sæm landar á Siglufirði

Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum er hafin og stendur yfir næstu þrjár vikurnar. Fjögur skip taka þátt í verkefninu; togararnir Ljósafell SU og Bjartur NK og rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson. Alls verður togað á um 600 stöðvum á 20-500 m dýpi umhverfis landið.

Verkefnið, sem einnig er nefnt marsrall eða togararall, hefur verið framkvæmt með sambærilegum hætti á hverju ári síðan 1985. 

Hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson hefur verið við veiðar fyrir norðan land og landaði á Siglufirði á sunnudagsmorguninn síðastliðinn og síðan aftur seinnipartinn í gær. Hefur aflinn verið rúm 10 tonn í hvorri löndun.

Bjarni Sæmundsson RE 30 að kom inn til löndunar í gær

 

Hér fyrir neðan má sjá skjáskot af vef Hafró , af staðsetningu skipanna sem taka þátt í vorralli Hafró

Skjáskot af vef Hafró - http://www.hafro.is/skip/skip.html

 

Flettingar í dag: 162
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 647
Gestir í gær: 63
Samtals flettingar: 2417789
Samtals gestir: 537642
Tölur uppfærðar: 18.8.2018 05:05:29

Nafn:

Guðmundur Gauti Sveinsson

Farsími:

868-9333

Afmælisdagur:

25.08.1983

Heimilisfang:

Hávegur 26

Staðsetning:

Siglufjörður

Tenglar