06.01.2015 12:35

Sigurborg SH 12 gerir sig klára á ný ..

Unnið var við það í gærdag í Siglufjarðarhöfn að kara og setja ís um borð í Sigurborg SH 12 frá Grundarfirði .

Á vef Gísla Reynissonar , Aflafréttir.is , mátti lesa á dögunum grein sem bar titilinn "Sigurborg SH rækjukóngur árið 2014" en í henni mátti lesa meðal annars "Aflahæsti rækjubáturinn árið 2014 og hefur þessi bátur verið hæstur ísrækjubátanna undanfarin ár var Sigurborg SH sem landaði samtals 687 tonnum í 44 róðrum"

Við hér á myndasíðunni óskum Ómari og félögum til hamingju með titilinn .

 

Hér má sjá Jón Hólm Hafsteinsson starfsmann Fiskmarkaðs Siglufjarðar húkka á kör í gær.

 

 

05.01.2015 19:50

D/S Perla við störf í Sauðárkrókshöfn

Þiðrik Unason er duglegur að taka myndir á símann sinn og smellti af nokkrum í dag í Sauðárkrókshöfn , þar sem dýpkunarskipið Perla var við störf . 

Á vef Björgunar , sem gerir Perlu út , segir : "Perla er minna sanddæluskip Björgunar  og hefur það verið gert það út frá árinu 1979. D/S Perla er aðallega notuð til dýpkana, landfyllingar og annarra skyldra verkefna. Skipið ber allt að 300 m3 af efni og getur dælt efni upp af allt að 20 m dýpi."

Ég þakka Þiðrik fyrir sendinguna ..

Símamynd : Þiðrik Unason

 

Símamynd : Þiðrik Unason

 

Símamynd : Þiðrik Unason

 

Símamynd : Þiðrik Unason

 

Ég minni á netfangið mitt , 580skoger@gmail.com og eins þá sem eru snjallsímavæddir og eru með Instagram , en þar má slá inn skoger.123.is og finna myndasíðuna. Þar birtast daglega myndir af hinu og þessu tengdu skipum og bátum.

04.01.2015 14:10

Árni ÞH 127 - 54 ára og gerður út á línu og net

Á leið minni um Húsavík í fyrra , myndaði ég töluvert og meðal annars tók ég nokkrar myndir af Árna ÞH 127 þar sem hann stóð á búkkum á þurru.

Árni ÞH var smíðaður á Akureyri árið 1961 af Svavari Þorsteinssyni og bar í fyrstu nafnið Hafræna EA 42.

Á síðasta fiskveiðiári var báturinn gerður út á net , að undanskildum tveimur róðrum þar sem veitt var á línu. Var heildaraflinn rúm 21 tonn.

 
 
 

Ætli Haukur eigi miða um þennan  ?

 

Aðeins tengt Árna nafninu , því að í dag á stórvinur minn Árni Ólafsson frá Siglufirði, afmæli og er hann 32. ára. Sendi ég honum bestu óskir í tilefni dagsins.

03.01.2015 17:30

Bergey VE 544 og Vestmannaey VE 444

Það er gott að eiga góða granna , því að í gærkveldi birtist nágranni minn Arnar Þór Björnsson með USB lykil með myndum sem að hann tók á síðasta ári , en Arnar var á Sighvati Bjarnasyni VE frá Vestmannaeyjum .

Í dag fáum við að sjá fyrstu myndina frá Arnari en hún er af Bergey VE 544 og Vestmannaey VE 444.

Mynd : Arnar Þór Björnsson

 

Bergey VE var smíðuð í Gdyina í Póllandi árið 2006 en Vestmannaey ári síðar á sama stað.

02.01.2015 10:50

Brenna og Flugeldar - 4 myndir

Veður var gott á Siglufirði á gamlárskvöld og skemmtu ungir sem aldnir sér sér saman á brennu og við sprengingar síðar um kvöldið og fór allt vel og að ég held slysalaust .

Kvöldið byrjaði á brennu kl. 20:30 sem KF sáu um ..

 

Uppúr kl. 21:00 hóf Björgunarsveitin Strákar á Siglufirði glæsilega flugeldasýningu og má sjá tvær myndir úr henni hér fyrir neðan.

 
 

Þegar líða tók að miðnætti byrjaði fjörið á ný og sprengdu Siglfirðingar og gestir þeirra gamla árið burt með stæl.

 

Þessar myndir eiga kannski ekki mikla tengingu við skip og báta , en stundum getur verið gaman að breyta til þegar lítið er að frétta. 

31.12.2014 19:00

Nú árið er liðið ..

 

" Nú árið er liðið .. " er upphafið á sálm sem sr. Valdimar Briem orti árið 1886 og nú 128 árum síðar á þessi gamli sálmur enn vel við á þessum tímamótum . Nú er annað heila árið að líða sem þessi vefsíða hefur verið í gangi og má segja að "vinsældir" hennar séu alltaf að aukast ár frá ári.

Nú þegar að þetta er skrifað er gestafjöldinn kominn yfir 199 þús sem er bara býsna gott , þó var ég að vona að fjöldinn færi yfir 200 þús á þessu ári en ekki gengur það , en búast má við því að það verði á fyrstu dögum janúarmánaðar . 

Ég hef reynt að setja inn eina færslu að jafnaði á dag , en stundum hafa þær orðið fleiri. Í ár voru færslurnar 394 en í fyrra voru þær 441. 

Ég hef einnig haldið úti Facebook síðu , þar sem vinafjöldinn vex dag frá degi og nálgast töluna 900 þegar að ég gáði síðast. Þar birti ég oft myndir og annað sem ekki kemur hér fram ,  myndir af sjómönnum og öðrum sem tengjast sjávarútvegi. Hægt er að sjá Facebook síðuna með því að , SMELLA HÉR .

Það nýjasta sem mér datt í hug um daginn , var að stofna Instagram. Þeir sem eru snjallsímavæddir , geta fundið síðuna með því að slá inn "skoger.123.is" á Instagram en þar munu birtast myndir , af hinu og þessu tengdu skipum og bátum.

Þegar ég horfi til baka er ég bara býsna ánægður með árið og vil þakka þeim öllum vel fyrir sem sendu mér myndir og annan fróðleik . 

Að lokum vil ég minnast Markúsar Karls Valssonar skipaljósmyndara , sem féll frá fyrr á þessu ári en hann hélt úti vefsíðunni krusi.123.is

Ég óska öllum lesendum mínu til sjávar og sveita gleðilegs nýs árs og farsældar á nýju ári.

Guðmundur Gauti Sveinsson

 

30.12.2014 19:10

Múlaberg SI 22 á fiskitroll

Í gær var byrjað að gera Múlabergið klárt á fiskitroll en síðasti túr á rækju var þann 15 desember síðastliðnn . 

Búast má við því að Múlinn verði á fiskitrolli fram að páskum . 

 

Myndin var tekin þann 17 desember síðastliðinn.

29.12.2014 11:50

Klakkur SK 5

Þiðrik Unason er duglegur að senda mér myndir og hér má sjá Klakk SK 5 , ljósum prýddur í höfn á Sauðárkrók um jólin.

 

Ég þakka Þiðrik vel fyrir og minni á netfangið mitt, 580skoger@gmail , fyrir þá sem hafa áhuga á að senda mér myndir til birtinga.

28.12.2014 11:40

Gömul bók : Úr bókasafni bv. Elliða SI

Hún virtist ekki merkileg þessi gamla skrudda , sem fannst þegar að bókaskáparnir hjá gömlu hjónunum voru færðir til og endurraðað var í þá.

 

Þegar að hún var opnuð , kom í ljós þetta var bókin "Mýs og Menn" eftir John Steinbeck.

 

En það sem mestu athygli vakti var , að hún var merkt b/v Elliði - nr. 27 .

 

Ég spurði þann gamla , hvort að hann myndi hvernig bókin hefði endað hjá honum, sagði hann " Á sumrin var Elliða lagt og vorum við nokkrir sem vorum látnir taka til og græja skipið . Eitt af því var að þrífa lúkarana , taka dýnurnar úr kojunum , sópa þær og ásamt ýmsu öðru . Menn geymdu lesmál og ýmislegt annað undir höfurlæginu og stundum áttu hlutir til að gleymast þar. Í einni kojunni fann ég þessa bók og þar sem ég átti eftir að lesa hana , tók ég hana með mér heim og svo endaði hún í bókaskápnum hjá mér og rakst ég ekki á hana fyrr en mörgum árum seinna og þar hefur hún verið alla tíð síðan. "

 

Eins og margir vita , kom Elliði SI nýr til hafnar á Siglufirði árið 1947 , 4 árum eftir að bókin kom út , en Elliði SI sökk árið 1962. 

Líklegast er þetta einn af fáum hlutum sem tilheyra Elliða SI sem hafa varðveist .

27.12.2014 18:50

Gömul skjöl : Cook , Welton & Gemmel Ltd

Hér er ein gömul auglýsing sem ég fann í einum af bunkunum mínum . 

Með því að smella HÉR má lesa smá umfjöllun á Wikipedia.

Mynd : Úr einkasafni - Skönnun : ggs

 

26.12.2014 11:20

Gömul skjöl : Fyrsta sigling Elliða SI

Þann 12.12.2012 birtist á hinni stórgóðu vefsíðu Togarar.123.is , sem Hafliði Óskarsson hélt úti , grein um fyrstu siglingu Elliða SI 1. Þar sagði meðal annars " Föstudaginn 12. desember árið 1947 er b.v. Elliði SI 1 frá Siglufirði á siglingu suður með austurströnd Englands. 

Áfangastaður togarans er Hull við Humberfljót, þar sem aflinn skyldi seldur.

Þetta er fyrsta söluferð hins nýja skips en einungis eru liðnir réttir 2 mánuðir frá því togarinn hélt niður Humberfljótið, nýsmíðaður, og sigldi sem leið lá til Íslands. Hafði togarinn farið eina veiðiferð áður og þá var afla skipsins umskipað í annað skip í Hafnarfirði. "

Ég hef sett öll þessi skjöl í albúm hér á síðunni og með því að smella HÉR má sjá þau öll , 40 talsins. Einnig er hægt að smella á Gömul skjöl : Elliði SI 1 hér á vinstri spalta síðunnar til þess að komast í albúmið.

Hér fyrir neðan má sjá tvö skjöl úr "bunkanum"

Skjal : Úr einkasafni - Skönnun : Hafliði Óskarsson

 

Skjal : Úr einkasafni - Skönnun : Hafliði Óskarsson

 

 

25.12.2014 17:45

Elliði SI 1 - Líkan

Það er við hæfi eftir að hafa birt smá kaflabrot úr bókinni Útkall - Örlagaskotið , eftir Óttar Sveinsson að birta aðra mynd af Elliða SI 1, þótt þetta sé einungis mynd af líkaninu sem Hafliðafélagið lét smíða , enda lítið til af myndefni af síðutogurum hér á bæ. 

 

Það er rólegt yfir öllu þessa dagana og því mun ég á morgun birta gömul skjöl tengd Elliða SI 1. 

24.12.2014 16:00

Með ósk um gleðileg jól

Ég óska öllum lesendum síðunnar , skoger.123.is , gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári . Megið þið hafa það sem best um hátíðina.

 
 
 

Þeir leynast víða dýrgripirnir og oftar en ekki finnast þeir við jóla tiltektina . Ég fann þetta kort frá Slysavarnarfélagi Íslands í einum af mörgum blaðabunkunum í draslinu mínu. Ég veit nú ekki síðan hvenær það er , en gamalt er það .

Jólakveðja frá Siglufirði ,

Guðmundur Gauti Sveinsson

22.12.2014 14:35

Sturlaugur H Böðvarsson

Hér er Sturlaugur H. Böðvarsson í Reykjarvíkurhöfn í apríl. Í bakgrunni má sjá Juni ex . Venus HF 518

 

Í skipaskrá Fiskifrétta má sjá um Sturlaug H. Böðvarsson : 

Smíði

Smíðaár 1981
Smíðastaður Akranes
Smíðaland Ísland
Smíðastöð Þorgeir & ellert hf
Smíðanúmer 35
Efniviður Stá

20.12.2014 16:30

Útkall - Örlagaskotið (Kaflabrot úr bókinni)

Núna fyrir jólin kom út 21. Útkallsbókin eftir Óttar Sveinsson, Útkall - Örlagaskotið. Í henni er sagt frá Elliða-slysinu 1962 og nýrri hlið af sögunni um árásina á Goðafoss 1944. Ég hafði samband við Óttar Sveinsson og fékk leyfi hjá honum til þess að birta smá kaflabrot úr bókinni.

Á aftari bókarkápunni segir : "Togarinn Elliði SI 1 frá Siglufirði liggur ljóslaus og vélarvana á hliðinni í glórulausu hafróti og éljagangi. Klukkustundum saman hírast flestir í 28 manna áhöfninni hoknir fyrir aftan brú og bíða örlaga sinna. Tveir ungir piltar hurfu út í sortann á örsmáum korkfleka – enginn í áhöfninni, þar á meðal faðir annars þeirra, á von á að sjá þá aftur á lífi. Skömmu áður höfðu tveir aðrir skipverjar í örvæntingu stokkið út í gúmbát sem slitnaði frá Elliða – þeirra er einnig saknað. Á bátabylgjunni heyra Siglfirðingar rödd loftskeytamanns Elliða tilkynna: „Ég held við séum að fara yfir um.“ Fæstir telja að Elliði snúi aftur – meðal þeirra er nítján ára ófrísk unnusta loftskeytamannsins. Togarinn Júpiter siglir af stað á fullri ferð í ofviðrinu eftir að hafa heyrt síðbúna neyðartilkynningu í Ríkisútvarpinu. Hér er sagt frá ævintýralegum björgunaraðgerðum út af Breiðafirði 10. febrúar 1962."

Mynd : Fengin af netinu 

 

Faðir minn , Sveinn Björnsson var netamaður um borð í Elliða á þessum tíma en hafði tekið sér frí. Við gerð bókarinnar hafði Óttar samband við pabba og birti ég nú hluta af því sem hann hafði að segja og birtist í bókinni :

"Sveinn Björnsson var 26 ára Siglfirðingur sem hafði verið í áhöfn Elliða frá sautján ára aldri. Hann átti tvo yngri bræður um borð, þá Friðrik, 21 árs, og Hjalta, 22 ára. Þegar Elliði kom heim úr siglingu frá Bretlandi í vikunni áður hafði eiginkona hans fært honum tíðindi. Læknir í bænum hafði úrskurðað að hún þyrfti að fara sem fyrst í skurðaðgerð á sjúkrahúsi í Reykjavík. Hún yrði send með næsta strandferðaskipi suður:

Af því að konan mín veiktist skyndilega varð ég að fara í land og fá frí frá Elliða til að sinna börnunum okkar fjórum, sem voru á aldrinum fimm til tólf ára. Það varð hálfgert mannahrak á skipinu af þessum sökum. Hólmar og Egill Steingrímsson, félagi okkar, sem var 36 ára, voru í raun báðir farnir af skipinu. Hólmar var trúlofaður, hann var vörubílstjóri og vann alla jafna í landi og hafði það gott þar. Egill ætlaði að fara í frí. Nú vantaði útgerðina mannskap til að fara í túrinn. Egill og Hólmar voru báðir hörkuduglegir og góðir félagar. Þegar ljóst var að það vantaði mann í plássið mitt biðlaði Kristján skipstjóri, sem var frændi Hólmars, til hans um að taka þennan túr. Hólmar lét undan. Við Hólmar vorum fermingarbræður, fæddir sama árið, vorum saman í gagnfræðaskóla og þekktumst vel.

Síðar í bókinni segir

Sveinn Björnsson var heima á Siglufirði með börnin sín fjögur. Konan hans var farin til Reykjavíkur í skurðaðgerðina. Hann hafði skroppið niður í bæ til að kaupa sér tóbak:

„Þegar ég kom í sjoppuna sagði einhver við mig: „Heyrðu, Sveinn, hann Elliði er að sökkva.“ 

„Hvaða bölvuð vitleysa er þetta?“ sagði ég strax. „Það getur ekki verið, þetta er einhver misskilningur. Hvaðan hefur þú þetta?“ 

Mér var sagt að þetta hefði heyrst í talstöð á báti og starfsmennirnir á Loftskeytastöðinni á Siglufirði hefðu einnig sagt þetta. Ég fór heim en gekk svo yfir til foreldra minna. Þegar ég kom inn sátu þau við eldhúsborðið og ég sá strax að eitthvað var að, þeim var greinilega brugðið. 

„Eruð þið búin að heyra að Elliði sé að sökkva?“ spurði ég.

„Já,“ svaraði pabbi strax. 

„Það var verið að segja okkur þetta.“ „Ég trúi því bara ekki að þetta sé að gerast,“ sagði ég.

„Jú,“ sagði pabbi. „Ég held að þetta sé nokkuð klárt. Það eru allir að tala um þetta.“ 

Rétt hjá okkur bjuggu tvær konur sem áttu ættingja um borð í Elliða eins og við. Stuttu síðar kom önnur þeirra yfir til okkar, hágrátandi. Hún átti son um borð.“

Seinna segir

Óvissan hélt áfram um nóttina. Enn var verið að leita tveggja manna sem horfið höfðu út í sortann og var sárt saknað. Fréttirnar um björgunina voru óljósar og aðstandendur óttuðust um afdrif síns fólks. Sveinn Björnsson átti tvo yngri bræður um borð, þá Hjalta og Friðrik. Hann hafði verið hjá foreldrum sínum:

„Við sem áttum ættingja um borð vöktum alla nóttina. Það var reynt að fá fréttir eins og kostur var. Þau á Loftskeytastöðinni gátu ekki sagt annað en að skipið væri á floti meðan það var. Svo var sagt að tveir væru týndir. Ég svaf ekkert, heldur gekk bara um gólf. Hið sama var með foreldra mína. Ég bað til Guðs að það væru ekki bræður mínir sem hefðu týnst á gúmbátnum.“ "

---

Þessi mynd af þeim gamla er í bókinni , en hún er tekin um borð í Hafliða SI 2

Mynd : Jóhann Ö. Matthíasson

 

Ég þakka Óttari kærlega fyrir og hvet alla til þess að tryggja sér eintak af bókinni . Hún fæst í öllum betri bókabúðum og stórmörkuðum. Einnig er hún fáanleg sem hljóðbók , en hana er hægt að kaupa HÉR .

 

Flettingar í dag: 225
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 292
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 2491567
Samtals gestir: 546530
Tölur uppfærðar: 19.1.2019 21:28:27

Nafn:

Guðmundur Gauti Sveinsson

Farsími:

868-9333

Afmælisdagur:

25.08.1983

Heimilisfang:

Hávegur 26

Staðsetning:

Siglufjörður

Tenglar