Færslur: 2016 Maí

31.05.2016 08:30

Á halanum í rjómablíðu ! - 3 myndir

Hjalti Gunnarsson Siglfirðingur og vélstjóri á aflaskipinu Þerney RE 1 sendi mér myndir í gær sem hann tók í þokunni fyrir vestan og í skeyti frá honum segir " Tók nokkrar myndir áðan þegar ég var að smyrja í græjurnar á togdekkinu, við erum á halanum í rjómablíðu það var þétt þoka og svo létti til núna eftir hádegið. "

Skipin á myndunum eru Snæfell EA og Mánaberg ÓF 

Mynd : Hjalti Gunnarsson

 

Mynd : Hjalti Gunnarsson

 

Síðar um daginn kom önnur sending frá honum og í skeytinu sagði " ein í lokin af blíðunni sem brast á þegar þokunni létti, vestfjarðakjálkinn í fjarska tignarlegur "

Mynd : Hjalti Gunnarsson

 

Ég þakka Hjalta kærlega fyrir þessar glæsilegu myndir og minni á netfangið mitt , 580skoger@gmail.com , ef sjómenn vilja senda mér myndir til birtingar hér á vefnum. 

30.05.2016 14:20

Sóley Sigurjóns GK 200 landar rækju á Siglufirði

Sóley Sigurjóns GK 200 er byrjuð á rækjuveiðum og landaði 27 tonnum af rækju í Grundarfirði þann 24. maí síðastliðinn . 

Sóley Sigurjóns er nú komin norður fyrir land og landaði á Siglufirði í morgun um 15 tonnum af rækju. Rækjan er flutt á Hvammstanga þar sem hún er unnin hjá Meleyri . 

 
 

Í skipaskrá Fiskifrétta segir meðal annars um Sóley Sigurjóns : 

Smíðaár 1987
Smíðastaður Hvide sande danmörk
Smíðaland Danmörk
Smíðastöð J.k skibsbyggeri aps
Smíðanúmer 0183
Efniviður Stál

29.05.2016 18:00

Geir SI 55 - Umfjöllun um sögu skipsins

Í dag sjáum við mynd frá Héraðsskjalasafni Fjallabyggðar af Geir SI 55 við bryggju á Siglufirði. Ekki veit ég hver tók myndina né hvaða ár hún er tekin.

Skipið var smíðað í Noregi en ekki er vitað um ártal en J.C.I Arnesen á Akureyri eignast skipið 23.ágúst árið 1928 og fær það nafnið og skráninguna Geir EA 552 . Geir mældist 58 brl. og var með 60 ha. Dan vél . Árið 1933 var sett í skipið 130 ha. June Munktell vél. 

 

7 júní 1939 eignast Friðrik Guðjónsson skipið og fær það skráninguna SI 55. Þann 26. nóvember sama ár var Geir SI 55 auglýstur til sölu í Morgunblaðinu , ásamt fleiri bátum Friðriks Guðjónssonar.

 

Þann 6. maí árið 1949 er Geir SI 55 seldur Áka Jakobssyni í Reykjavík og heldur nafninu en fær skráninguna GK 272 .  

Árið 1957 fær Geir skráninguna RE 148 og strandar svo ári síðar við Reykjavík og er talinn ónýtur. Í fljótu bragði fann ég engar upplýsingar um strand skipsins en gaman væri ef einhver hefði upplýsingar um það og væri tilbúinn til þess að deila því hér fyrir neðan í athugasemdarkerfinu.

 

Heimild : Íslensk skip - bindi 1, bls. 102

28.05.2016 11:15

Múlaberg SI 22 í slipp

Múlaberg SI 22 er nú komið í slipp á Akureyri og er áætlað að skipið verði í slipp í 3 vikur , hið minnsta. 

Skipta á um ljósavél , ásamt því að sinna öðru viðhaldi og eflaust verður skipið málað í leiðinni.

 

 

Múlaberg SI 22 var smíðað í Niigata Japan árið 1973 og hét Ólafur Bekkur ÓF 2 þegar að það kom nýtt til landsins þann 8 maí 1973. Þetta var sjöunda systurskipið, sem byggt var í Japan fyrir íslendinga, og jafnframt það fjórða og síðasta frá Niigata skipasmíðastöðinni. Skipið var eign útgerðarfélags Ólafsfirðinga, en það félag stofnuðu Hraðfrystihús Ólafsfjarðar, Hraðfrystihús Magnúsar Gamalíelssonar og Ólafsfjarðarbær um togarann til að afla hráefnis fyrir frystihúsin á Ólafsfirði

27.05.2016 10:45

Venus NS 150 í slipp á Akureyri

Skrapp í sunnudagsbíltúr til Akureyrar með fjölskylduna á sunnudaginn síðasta og tók þá þessa mynd af Venus NS 150 í flotkvínni en þar fór fram "ársskoðun" á skipinu . 

 

Til gamans má geta að í dag er eitt ár síðan að Venus NS kom til heimahafnar og var formlega gefið nafn.

Umfjöllun mína frá því í fyrra um Venus NS 150 má lesa HÉR

26.05.2016 10:50

Ocean Spirit í Hafnarfjarðarhöfn - Myndasyrpa

Ocean Spirit kom til Hafnarfjarðar í gærmorgun og lagðist að bryggju og liggur enn . Magnús Jónsson skellti sér á kæjann og tók nokkrar myndir og hér sjáum við fimm myndir sem hann sendi mér í gær. 

Ocean Spirit var smíðað árið 1998 og er í eigu Neptune ehf á Akureyri .

Mynd : Magnús Jónsson

 

Mynd : Magnús Jónsson

 

Mynd : Magnús Jónsson

 

Mynd : Magnús Jónsson

 

Mynd : Magnús Jónsson

 

25.05.2016 12:45

Strandveiðibátar : Júlía Blíða SI 173

 Fjölmargir bátar gera út á strandveiðar frá Siglufirði í sumar , einn þeirra er Júlía Blíða SI 173 sem Reynir Karlsson gerir út .

Júlía Blíða var smíðuð á Stokkseyri árið 1994 .

 

24.05.2016 12:30

Lukka ÓF 57 - Veiðin að glæðast fyrir norðan

Hér er Siggi Odds , eigandi Lukku ÓF 57, að landa í síðustu viku eftir línuróður. Veiðin var með ágætum í gær hjá línubátunum sem gera út frá Siglufirði en Lukka ÓF var með um 3,7 tonn .

 

23.05.2016 12:40

Dýpkunarskipið Perla rifið í Hafnarfirði

Magnús Jónsson sendi mér þessar tvær myndir af dýpkunarskipinu Perlu á dögunum með þeim skilaboðum að stefnt væri að því að rífa skipið í Hafnarfirði á næstu dögum. Mér er ekki kunnugt um hvernig staðan á verkinu er , hvort að byrjað sé að rífa skipið eða búið að því.

Mynd : Magnús Jónsson

 

Mynd : Magnús Jónsson

 

Perla var smíðuð í Husum í V-Þýskalandi árið 1964.

22.05.2016 21:45

Rússar og Eldborg

Magnús Jónsson sendi mér þessar myndir á mánudaginn síðasta og í skeytinu sagði Magnús " Rússarnir að umskipa úthafskarfa i skip og Eldborg komin í langlegudeildina. "

Mynd : Magnús Jónsson

 

Mynd : Magnús Jónsson

22.05.2016 12:35

Bjarki SI 33 - Umfjöllun um sögu skipsins

Í dag sjáum við tvær myndir frá Héraðsskjalasafni Fjallabyggðar af línuskipinu Bjarka SI 33. Skipið var smíðað í Þýskalandi árið 1911 og kom upphaflega undir nafninu Siegfried til Íslands árið  1925 og var það frá Cuxhaven. Skipið var 141 brl. 

Fyrsti eigandi þess á Íslandi var Bjarni Ólafsson , Akranesi , frá 9.júlí 1926 og bar þá nafnið Ólafur Bjarnason MB 57. Skipið er selt 7 október 1929 Fiskveiðihlutafélaginu Ármanni , Reykjavík , og ber þá nafnið RE 4. 

Selt 25 júlí 1932 Samvinnuútgerð Siglufjarðar og hét þá Bjarki SI 33 . Í lok árs 1933 eignast Eyþór Hallsson á Siglufirði skipið  , sem síðar selur Steindóri Hjaltalín á Siglufirði það árið 1939 . Árið 1944 er skipið lengt og mælist þá 176 brl.

Árið 1946 er skipið selt til Akureyrar og fær þá nafnið Bjarki EA 764.

 

Í bókinni " Á vaktinni " segir Hannes J Hafstein frá því þegar að hann fékk pláss á Bjarka SI á síldarvertíðinni árið 1944. Í bókinni segir "Ég vissi ekki fyrr en síðar að þetta var svo sannarlega skip með fortíð. Það var smíðað í Þýskalandi árið 1911 og gert út til línuveiða í Norðursjónum. Þar kom að talið var að hægt væri að stunda ábatasamari útgerð en að draga stútunga úr Norðursjó og í byrjun marsmánaðar 1925 var skipið komið alla leið til Íslands og lá við festar í Vogavíkinni. Þrír menn reru á skipsbátnum í land og hélt einn þeirra , sem var Íslendingur , rakleiðis til Reykjavíkur. Þegar hinir tveir ætluðu aftur til skips gripu veðurguðirnir í taumana og hindruðu för út í skipið. Yfirvaldinu suður með sjó þótti ferðir skips og manna grunnsamlegar, lét handtaka þýsku strandaglópana og óskaði eftir að stjórnvöld könnuðu frekar ferðir skipsins. Varðskipið Fylla var sent á vettvang og þegar varðskipsmenn opnuðu lesta skipsins blasti við þeim heill farmur af spírabrúsum og eðalvíni á flöskum.

Til að gera langa sögu stutta þá voru í skipinu 17 þúsund lítrar af áfengi og var skipið með öllum farmi gert upptækt. Skipverjar voru dæmdir í sektir og til tukthúsvistar. Ríkissjóður seldi skipið síðar Bjarna Ólafssyni á Akranesi og fékk það þá Íslenskt nafn, Ólafur Bjarnason MB 57.

 

Bjarki EA 764 var seldur til niðurrifs og tekið af skrá árið 1956.

 

Heimildir : Íslensk skip , 2 bindi - Á vaktinni , Steinar J Lúðvíksson 1996 - Óskar Franz Óskarsson

21.05.2016 11:00

Svipmyndir vikunnar II - Myndasyrpa

Hér fyrir neðan eru 10 myndir sem ég tók í vikunni sem er að líða . Á þeim má sjá hluta af starfsmönnum Fiskmarkaðs Siglufjarðar við löndun úr Sigurbjörg ÓF , hressar konur úr samtökunum Konur í sjávarútvegi og nokkra strandveiðibáta . 

Góða helgi !

 

 

Sigurbjörg ÓF landaði um 130 tonnum af afurðum , mestmegnis þorski og ufsa .

 

Ægir Örn Arnarson

 

Jónas Sumarliðason - Hafnarvörður

 

Óðinn Freyr Rögnvaldsson

 

 

 

Sverrir Bergvin Kárason - Dawid Dziondziakowski - Guðmundur Gauti Sveinsson

 

Lúðvík Gunnlaugsson - Eigandi Trausta EA 98

 

 

Á fimmtudaginn síðastliðinn komu í heimsókn á Fiskmarkað Siglufjarðar 48 hressar konur úr samtökunum Konur í sjávárútvegi. 

Fiskmarkaður Siglufjarðar bauð þeim til smá veislu þar sem þær gæddu sér á veitingum frá Aðalbakaríinu á Siglufirði og skoðuðu húsakynni FMSI .

 

20.05.2016 15:25

Faxaborg SH 207 landar á Siglufirði

Faxaborg SH 207 kom til löndunar á Siglufirði um kl. 22:00 í gærkveldi og landaði um 4 tonnum af slægðu en Faxaborg SH er gerð út á línu.

Faxaborg SH 207, sem er í eigu KG fiskverkunar í Rifi, hét áður Sólborg RE og var í eigu Brims. Faxaborg er svokallaður Kínabátur sem smíðaður var árið 2001. Faxaborgin var lengd um 4,5 metra og yfirbyggð hjá skipasmíðastöð Njarðvíkur. 

 

Myndin er tekin úr eldhúsglugganum heima í gærkveldi.

19.05.2016 22:40

Meira um Fjólu BA 150

Í færslu sem ég setti inn í gærmorgun og fjallaði um hugsanleg endalok Fjólu BA 150 , hafa mér borist nokkar ábendingar .Til dæmis benti Þiðrik Unason mér á það að í Morgunblaðinu , þann 27.ágúst í fyrra hafi verið viðtal við Lárus H. List á Akureyri  , þar sem hann segir frá því að hann hafi nú eignast Fjólu BA og stefni að því að gera upp bátinn og varðveita hann. 

Í viðtalinu segir " Báturinn var smíðaður á Fáskrúðsfirði árið 1971 og er um 17 metra langur, með þessari fínu Gardner-vél sem er algerlega einstök.
Birkir Guðmundsson, bátaáhugamaður og vinur minn, sem er að gera upp Pilott BA í Reykjavík, kom okkur Jóhannesi Haraldssyni, fyrrverandi eiganda Fjólu, saman. Jóhannes hringdi einfaldlega í mig og spurði hvort ég hefði áhuga á að taka við bátnum, með það að markmiði að gera hann upp og varðveita.
Ég þurfti nú ekki að hugsa málið lengi, enda er Fjóla um margt í mjög góðu standi, þannig að það eru spennandi tímar framundan hjá mér og eflaust fæ ég gott fólk í lið með mér varðandi framhaldið. Ég þakka mínum sæla fyrir að Jóhannes hafi viljað koma bátnum til fólks sem hefur áhuga á að varðveita íslenska skipasögu. Siglingin hingað norður gekk vel, enda veðrið ákjósanlegt.
 "

 

Í viðtalinu segir einnig " Lárus segir að á Akureyri séu um margt góðar aðstæður til að gera upp eikarbáta og bendir á Húna II, sem var smíðaður á Akureyri árið 1963. „Það var búið að taka Húna II af skipaskrá á sínum tíma og til stóð að eyða honum á áramótabrennu. En honum var bjargað og kom hingað 2005 í ágætis standi. Ég átti frumkvæðið og hugmyndina að Húnaverkefninu, sem gekk eftir eins og við þekkjum það hér.

Margir hafa komið að viðhaldi Húna II og ég held að augu landans séu að opnast í þessum efnum. Það tekur nokkur ár að gera upp slíkt margt gott fólk kemur til með að leggjast á árarnar með mér í þessu nýjasta verkefni. Við getum sagt að ástríða sé lykilatriðið í slíku verkefni og hérna á Akureyri er stór hópur sem hefur metnað og vilja til að varðveita söguna og gera upp slíkan bát. Fjóla verður án efa fallegt blóm í flórunni með tíð og tíma. Þótt ekki séu liðnir margir dagar frá því Fjólu var lagt hérna við Torfunefsbryggju, hafa þegar margir sett sig í samband við mig og lýst yfir áhuga á að
koma að endurgerðinni, þannig að ég er viss um að þetta verkefni kemur til með að verða gjöfult og skemmtilegt.
 "

Þá vitum við það , Fjólu BA verður ekki fargað að sinni , ef að draumur Lárusar gengur eftir .. 

18.05.2016 23:15

Binni EA 108 heldur til veiða

Þiðrik Unason sendi mér þessar tvær myndir af Binna EA 108 sem hann tók á Hofsós í fyrradag , þegar að Binni EA var að fara að vitja um grásleppunetin.

Mynd : Þiðrik Unason

 

Mynd : Þiðrik Unason
Flettingar í dag: 225
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 292
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 2491567
Samtals gestir: 546530
Tölur uppfærðar: 19.1.2019 21:28:27

Nafn:

Guðmundur Gauti Sveinsson

Farsími:

868-9333

Afmælisdagur:

25.08.1983

Heimilisfang:

Hávegur 26

Staðsetning:

Siglufjörður

Tenglar