Færslur: 2017 Júní

20.06.2017 12:00

Múlaberg SI & Sóley Sigurjóns GK landa á Siglufirði

Landað var úr Múlaberg SI í gærmorgun rúmlega 20 tonnum af rækju og tæplega 10 tonnum af fiski . 

Rækjan fer í vinnslu hjá Ramma hf á Siglufirði en fiskurinn fór í sölu á Fiskmarkað Siglufjarðar.

 

Sóley Sigurjóns GK er byrjuð á rækju og landaði tvívegis fyrir sjómannadag  , í Grundarfirði og í Sandgerði en er núna komin norður fyrir land og landaði á Siglufirði í gær um 35 tonnum af rækju sem fer í vinnslu hjá Meleyri á Hvammstanga og 15 tonnum af fiski sem fluttur var suður í vinnslu.

 

19.06.2017 21:30

Tómas Þorvaldsson GK 10 landar á Siglufirði

Eftir frekar rólega mánuði er farið að aukast lífið á bryggjunum á Siglufirði . Tómas Þorvaldsson GK kom inn til Siglufjarðar í gærmorgun og landaði góðum afla og er væntanlegur aftur á miðvikudaginn. Strákarnir hjá Jón & Margeir sáu um að flytja aflann suður til vinnslu hjá Þorbirni hf.

Hér fyrir neðan má sjá þrjár myndir frá því í gærmorgun.

 
 
 

16.06.2017 11:25

Erling KE 140

Þiðrik Unason tók þessa mynd í byrjun mánaðarins af Erling KE 140 í Dalvíkurhöfn en Erling KE er gerður út á grálúðunet af Útgerðarfélagi Akureyrar þessa dagana.

Mynd : Þiðrik Unason

 

13.06.2017 11:15

Bræðurnir Oddur á Nesi og Óli á Stað

Yfir sjómannadagshelgina lágu bræðurnir Oddur á Nesi SI og Óli á Stað GK saman við bryggju á Siglufirði . 

Ég ætlaði að ná betri myndum af bátunum saman en kom því ekki í verk í tæka tíð áður en Óli á Stað hélt til í gærkveldi .

 

Nafn: ODDUR Á NESI // ÓLI Á STAÐ
Skráningarnr: 2912 // 2842
Brúttótonn: 29,37 t // 29,95 t
Skráð lengd: 11,99 m // 13,17 m
Smíðað: 2016 Seigla // 2017 Seigla 

12.06.2017 12:30

Sjómaður heiðraður : Páll Gunnlaugsson

Í gær á Sjómannadeginum á Siglufirði var athöfn á Rammatúni þar sem blómsveigur var lagður að minnisvarða um drukknaða sjómenn og að því búnu Páll Gunnlaugsson heiðraður fyrir sjómannsferil sinn. Hann er fæddur 28. febrúar 1936 og því orðinn 81 árs gamall.

Stúlkur úr Slysavarnardeildinni Vörn sáu um að leggja blómsveginn við minnisvarðann.

 

Sr. Sigurður Ægisson

 

Sigrún Sigmundsdóttir leggur blómsveiginn við minnisvarðann.

 

 

 

Sigurður Ægisson , Katrín Andersen og Páll Gunnlaugsson

 

Páll Gunnlaugsson byrjaði á línubát frá Reykjavík þegar hann var 17 ára og fljótlega fór hann sem háseti á togarann Elliðaey frá Vestmannaeyjum. Hann lauk 120 tonna réttindanámskeiði í Borgarkaffi á Siglufirði, hjá Guðmundi Arasyni frá Sjómannaskólanum.

Það einkennir sjómannaferil Páls, að hann hefur víða komið við sögu á margs konar fiskiskipum. Eitt sumar var hann á mb. Garðari frá Patreksfirði, sem nú er hafður til sýnis í fjörunni í Skápadal þar vestra. Garðar er elsti stálbátur Íslendinga, smíðaður í Noregi árið 1912. Mörg sumur var Páll á síld, t.d. á Hólmanesi frá Eskifirði sem var 250 tonna fley, smíðað í Austur-Þýskalandi. Vetrarpart var Páll á togaranum Austfirðingi og síðan oft á Hafliða SI 2 á sumrin, en á Þorsteinni Ingólfsyni RE 206 á veturna. Upp úr 1960 gerðist Páll háseti á Hafliða SI 2 og var í áhöfn allar götur þar til togaranum var lagt við Hafnarbryggjuna árið 1972.
 

Katrín Andersen , Hulda Katrín Hersteinsdóttir og Páll Gunnlaugsson

 

Páll hóf árið 1973 ásamt fleirum útgerð Jökultinds, 15 tonna báts. Stóð hún til 1979 og voru ýmsar veiðar stundaðar.

Í apríl 1974 kom Sigluvík, sem smíðuð var á Spáni, til Siglufjarðar og var Páll ýmist annar stýrimaður eða háseti á því skipi í nokkur ár.

Páll var lánsamur til sjós og minnist ekki neinna slysa um borð, þó stundum hafi legið nærri, eins og t.d. árið 1985 þegar hann var stýrimaður á Sveinborginni sem Sæmundur Árelíusson gerði út. Skipið var þá á leið til Englands undir skipstjórn Hjalta Björnssonar, þegar það fékk á sig brotsjó austur af Vestmannaeyjum. Brotið gekk í gegnum brúna og gerði svo til öll tæki ónothæf. En skipið komst inn til Vestmannaeyja og eftir lagfæringar var ferðinni haldið áfram.

Sjómennska Páls endaði á rækjubátnum Ögmundi sem var í eigu þáverandi eigenda Sigló, sem einnig gerðu út rækjuskipið Helgu.

Þegar í land var komið hóf Páll störf á netaverkstæðinu á Siglufirði og vann þar til hann settist í helgan stein 69 ára gamall.

Eiginkona Páls er Stella Minný Einarsdóttir og börn þeirra eru Ólafur Þór, Ásdís Vilborg, Gunnlaugur, Ásgrímur, Sigurjón og Róbert.

 

 

 

Sveinn  Björnsson , Sigurður Ægisson og Páll Gunnlaugsson

11.06.2017 14:00

Sjómannadagskveðja

skoger.123.is sendir öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra hátíðarkveðjur í tilefni af sjómannadeginum !

 

11.06.2017 12:50

Grindhvalir á Siglufirði !

Í morgun um kl. 10:00 þegar að Steingrími Óla Hákonarsyni var litið út um eldhúsgluggann heima hjá sér blasti við honum furðulega sjón , því í sjónum fyrir utan bensínstöð Olís virtist vera hvalavaða . Hringdi hann í mig og sagði mér að klæða mig í snatri og vera með myndavélina tilbúna og svo var brunað niður í bæ til þess að reyna að ná myndum . 

Vaðan var frekar langt frá bryggjunni til þess að ná góðum myndum og fengum við þá Jannis Arelakis til þess að fara með okkur á Otur SI til þess að elta þá uppi og ná betri myndum . Fundum við vöðuna í Neskróknum. Við áætluðum að þetta hafi verið um 30 - 40 Grindhvalir .

Ég náði nokkrum myndum sem sjá má hér fyrir neðan en fyrstu tvær voru teknar á bryggjunni en hinar voru teknar þegar að við vorum komnir að vöðunni í Neskróknum.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Ég talaði við karl föður (82 ára) minn í morgun og minntist hann ekki þess að grindhvalir hefðu komið inn til Siglufjarðar í fjölda mörg ár . Síðasta dæmið sem hann vissi um var í kringum 1917 þegar að hvalavaða gekk inn fjörðinn og voru þá Norskir selveiðimenn sem hefðu aðstoðað Siglfirðinga að veiða dýrin á leirunum og voru þau svo dregin upp i gamla slippinn þar sem þau voru skorin.

Grindhvalur eða marsvín er nokkuð stór tannhvalur, skrokkurinn er sívalur og  þreklegur, dökkbrúnn eða svartur með hvítan blett á bringu og  sum dýr hafa ljósan söðul aftan við hornið og ljósa skugga aftur frá augum. Hornið er staðsett fyrir framan miðjan búk, það er nokkuð sérstakt, langt, miðlungshátt, aftursveigt með ávalar útlínur og þykkt næst búknum. Bægslin eru mjó og óvenju löng, allt að 25% af lengd dýrsins, fremsti hluti bægslanna vísar út frá búknum svo sveigjast bægslin aftur og minna á handleggi. Tannapör eru 8 til 20 í hvorum góm.

Grindhvalir halda sig oftast í hjörðum þar sem er að finna fullorðin dýr af báðum kynjum og afkvæmi kúnna. Fullorðnir tarfar eru oftast ekki feður yngstu kálfanna í hjörðinni og virðist mökun verða milli hjarða. Hjarðirnar eru misstórar allt frá nokkrum dýrum upp í meira en þúsund. Hjarðir grindhvala mynda gjarnan stórar vöður oft nokkur hundruð eða þúsund dýr saman. Grindhvalir eru félagslyndir og slást oft í hóp annarra hvala svo sem höfrunga, langreyða, búrhvala og jafnvel háhyrninga. Á mökunartímanum er algengt að karldýrin berjist af mikilli hörku og lýkur slagsmálum oft með dauða eða alvarlegum limlestingum.

Myndbandið hér fyrir neðan tók Steingrímur Óli upp á símann sinn .

10.06.2017 09:00

Nýr Björgúlfur EA - Videó

Arnar Björnsson nágranni minn og vélstjóri gaf mér góðfúslega leyfi til þess að birta hér á síðunni Drónamyndband sem hann tók þegar að Björgúlfur EA kom til heimahafnar á Dalvík nú á dögunum.

Hvet ykkur til að smella hér á vídeóið en það er um tvær mínútur að lengd.

d

09.06.2017 22:00

Sjómannadagshelgin !

Sjómannadagurinn er fyrsti sunnudagurinn í júní ár hvert, nema ef hvítasunnu ber upp á þann dag, þá er hann næsti sunnudagur þar á eftir. Hann er hátíðisdagur allra sjómanna. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur þann 6. júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði[1] en frá upphafi 20. aldar tíðkaðist að halda sérstakar sjómannamessur í kirkjum áður en þilskipin héldu til veiða eftir vetrarlægi, sem var yfirleitt 3. eða 4. sunnudag eftir þrettánda.

Árið 1987 var dagurinn lögskipaður frídagur sjómanna.

                                            Mynd : Úr safni Sveins Björnssonar - ljósmyndari ókunnur

Í lögum um sjómannadaginn segir : 

 1. gr. Fyrsti sunnudagur í júnímánuði ár hvert skal vera almennur frídagur sjómanna með þeim undantekningum sem um getur í lögum þessum. Beri hvítasunnudag upp á fyrsta sunnudag í júní skal sjómannadagur haldinn næsta sunnudag á eftir.
 Sjómannadagurinn skal vera almennur fánadagur.
 2. gr. Ákvæði 1. gr. taka ekki til sjómanna á íslenskum farskipum sem sigla milli Íslands og annarra landa. Þó skal farskipi, sem liggur í íslenskri höfn og eigi hefur látið úr höfn fyrir kl. 12 á hádegi á laugardegi næstum á undan sjómannadegi, eigi heimilt að láta úr höfn fyrr en kl. 12 á hádegi næsta mánudag.
 Ferjur milli lands og eyja eru undanþegnar ákvæðum 1. gr.
 Strandferðaskip og sanddæluskip skulu halda höfn þar sem þau eru stödd á sjómannadag.
 3. gr. Ákvæði 1. gr. taka ekki til skipa Landhelgisgæslu Íslands. Stjórn Landhelgisgæslunnar ber þó að sjá til þess að skipin séu í höfn ef þau hafa ekki aðkallandi verkefnum að gegna að hennar mati.
 4. gr. Hafrannsóknastofnunin skal skipuleggja rannsóknaleiðangra þannig að skip geti leitað hafnar eigi síðar en kl. 12 á laugardegi fyrir sjómannadag og láti ekki úr höfn fyrr en kl. 12 á hádegi næsta mánudag.
 5. gr. Öll fiskiskip skulu liggja í höfn á sjómannadag og hafa komið til hafnar eigi síðar en kl. 12 á laugardegi fyrir sjómannadag og láta ekki úr höfn fyrr en kl. 12 á hádegi næsta mánudag.
 Skipverjar skulu ekki vera skyldir til vinnu við skipið eftir kl. 12 á laugardegi fyrir sjómannadag nema öryggi þess sé í hættu.
 Ákvæði 1. mgr. eru frávíkjanleg ef um er að ræða skip sem ætlað er að sigla með afla sinn á erlendan markað, enda sé skipshöfn kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferð hefst. Einnig má víkja frá ákvæðum 1. mgr. ef mikilvægir hagsmunir eru í húfi og samkomulag tekst þar um milli útgerðar og skipshafnar.
 6. gr. Útgerðarmaður og skipstjóri bera ábyrgð á því að farið sé að ákvæðum laga þessara. Brot gegn lögunum varða sektum í ríkissjóð.
 7. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi. ( Tóku gildi 14.apríl 1987 )

 

08.06.2017 18:20

Harpa HU 4

Hér er Harpa HU 4 við bryggju á Akureyri í síðasta mánuði en Harpa HU er gerð út á dragnót frá Hvammstanga.

 

Harpa HU var smíðuð árið 1970 hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar og bar áður nafnið Álftafell .

05.06.2017 22:30

Björgúlfur EA 312 - Glæsilegt skip !

Björgúlfur EA 312, nýr ísfisktogari Samherja, kom til heimahafnar á Dalvík 1 júní . Björgúlfur EA var smíðaður í Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi og var sjósettur í september í fyrra .

Björgúlfur EA er 62 metrar á lengd og 13,5 metra breiður. Skipið var hannað af Verk­fræðistof­unni Skipa­tækni, Bárði Haf­steins­syni, starfs­mönn­um Sam­herja og sér­fræðing­um sem þjón­usta flota Sam­herja.

Ég komst ekki á fimmtudaginn til þess að mynda komu skipsins en skrapp á laugardaginn og smellti af nokkrum myndum.

 
 
 

04.06.2017 12:00

Sólberg ÓF 1 heldur til veiða

Um klukkan 21:40 í gærkveldi hélt Sólberg ÓF 1 til veiða í fyrsta sinn en um prufutúr er að ræða til þess að sjá hvort að allt virki sem skyldi.

Ef að allt gengur að óskum fer Sólbergið í sinn fyrsta alvöru túr eftir sjómannadag.

Efri myndin er tekin í gærdag þegar að unnið var við að gera skipið klárt en sú neðri þegar að skipið hélt úr höfn.

 
 

01.06.2017 17:55

Frosti ÞH 229 byrjaður á rækju

Frosti ÞH 229 er byrjaður á rækjuveiðum og landaði þrívegis rækju á Grundarfirði í maí mánuði áður en hann hóf veiðar fyrir norðan land . 

Frosti ÞH kom inn til Siglufjarðar í gærmorgun og landaði um 15 tonnum af rækju og rúmu tonni af fisk.

Smellti af þremur myndum þegar að Frosti hélt á ný til veiða um hádegisbilið í gær.

 
 
 
  • 1
Flettingar í dag: 512
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 347
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 2462955
Samtals gestir: 543184
Tölur uppfærðar: 16.11.2018 19:12:23

Nafn:

Guðmundur Gauti Sveinsson

Farsími:

868-9333

Afmælisdagur:

25.08.1983

Heimilisfang:

Hávegur 26

Staðsetning:

Siglufjörður

Tenglar