12.06.2017 12:30

Sjómaður heiðraður : Páll Gunnlaugsson

Í gær á Sjómannadeginum á Siglufirði var athöfn á Rammatúni þar sem blómsveigur var lagður að minnisvarða um drukknaða sjómenn og að því búnu Páll Gunnlaugsson heiðraður fyrir sjómannsferil sinn. Hann er fæddur 28. febrúar 1936 og því orðinn 81 árs gamall.

Stúlkur úr Slysavarnardeildinni Vörn sáu um að leggja blómsveginn við minnisvarðann.

 

Sr. Sigurður Ægisson

 

Sigrún Sigmundsdóttir leggur blómsveiginn við minnisvarðann.

 

 

 

Sigurður Ægisson , Katrín Andersen og Páll Gunnlaugsson

 

Páll Gunnlaugsson byrjaði á línubát frá Reykjavík þegar hann var 17 ára og fljótlega fór hann sem háseti á togarann Elliðaey frá Vestmannaeyjum. Hann lauk 120 tonna réttindanámskeiði í Borgarkaffi á Siglufirði, hjá Guðmundi Arasyni frá Sjómannaskólanum.

Það einkennir sjómannaferil Páls, að hann hefur víða komið við sögu á margs konar fiskiskipum. Eitt sumar var hann á mb. Garðari frá Patreksfirði, sem nú er hafður til sýnis í fjörunni í Skápadal þar vestra. Garðar er elsti stálbátur Íslendinga, smíðaður í Noregi árið 1912. Mörg sumur var Páll á síld, t.d. á Hólmanesi frá Eskifirði sem var 250 tonna fley, smíðað í Austur-Þýskalandi. Vetrarpart var Páll á togaranum Austfirðingi og síðan oft á Hafliða SI 2 á sumrin, en á Þorsteinni Ingólfsyni RE 206 á veturna. Upp úr 1960 gerðist Páll háseti á Hafliða SI 2 og var í áhöfn allar götur þar til togaranum var lagt við Hafnarbryggjuna árið 1972.
 

Katrín Andersen , Hulda Katrín Hersteinsdóttir og Páll Gunnlaugsson

 

Páll hóf árið 1973 ásamt fleirum útgerð Jökultinds, 15 tonna báts. Stóð hún til 1979 og voru ýmsar veiðar stundaðar.

Í apríl 1974 kom Sigluvík, sem smíðuð var á Spáni, til Siglufjarðar og var Páll ýmist annar stýrimaður eða háseti á því skipi í nokkur ár.

Páll var lánsamur til sjós og minnist ekki neinna slysa um borð, þó stundum hafi legið nærri, eins og t.d. árið 1985 þegar hann var stýrimaður á Sveinborginni sem Sæmundur Árelíusson gerði út. Skipið var þá á leið til Englands undir skipstjórn Hjalta Björnssonar, þegar það fékk á sig brotsjó austur af Vestmannaeyjum. Brotið gekk í gegnum brúna og gerði svo til öll tæki ónothæf. En skipið komst inn til Vestmannaeyja og eftir lagfæringar var ferðinni haldið áfram.

Sjómennska Páls endaði á rækjubátnum Ögmundi sem var í eigu þáverandi eigenda Sigló, sem einnig gerðu út rækjuskipið Helgu.

Þegar í land var komið hóf Páll störf á netaverkstæðinu á Siglufirði og vann þar til hann settist í helgan stein 69 ára gamall.

Eiginkona Páls er Stella Minný Einarsdóttir og börn þeirra eru Ólafur Þór, Ásdís Vilborg, Gunnlaugur, Ásgrímur, Sigurjón og Róbert.

 

 

 

Sveinn  Björnsson , Sigurður Ægisson og Páll Gunnlaugsson
Flettingar í dag: 646
Gestir í dag: 49
Flettingar í gær: 637
Gestir í gær: 48
Samtals flettingar: 2385015
Samtals gestir: 534333
Tölur uppfærðar: 19.6.2018 19:43:41

Nafn:

Guðmundur Gauti Sveinsson

Farsími:

868-9333

Afmælisdagur:

25.08.1983

Heimilisfang:

Hávegur 26

Staðsetning:

Siglufjörður

Tenglar