24.07.2017 14:45

Frosti ÞH 229

Mörg rækjuskip hafa landað afla sínum á Siglufirði síðustu vikur og er Frosti ÞH 229 eitt þeirra en Frosti hefur landað rækju á Siglufirði síðan í enda maí mánaðar. Rækjan fer í vinnslu hjá Dögun á Sauðárkrók.

 

 

22.07.2017 22:00

Bjarni Sæmundsson RE 30 í rækjurannsóknarleiðangri

Hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson RE 30 kom inn til löndunar á Siglufirði í gærdag um kl. 17:00 . Bjarni Sæmundsson er þessa stundina í Rækjurannsóknarleiðangri en á vef Hafrannsóknarstofnunar , hafogvatn.is , er ekkert um leiðangurinn að finna og því hef ég litlar upplýsingar um stöðu hans.

 

21.07.2017 23:55

Arnar HU og Gullver NS

Þiðrik Unason tók þessar myndir um borð í Klakk SK 5 í enda júní af Arnari HU 1 og Gullver NS 12 á miðunum fyrir vestan.

Mynd : Þiðrik Unason

 

Mynd : Þiðrik Unason

 

20.07.2017 22:30

Blængur NK 25

Hér er Blængur NK 25 við bryggju á Akureyri í maí mánuði . Upphaflega hét skipið Ingólfur Arnarson RE og var smíðað á Spáni. Það kom nýtt til landsins í janúar árið 1974.

Bæjarútgerð Reykjavíkur átti það fyrstu ellefu árin en síðan eignaðist Ögurvík það og breytti því í frystiskip og bar þá nafnið Freri .Skipinu var breytt mikið árið 2000 og meðal annars lengt um tíu metra. Síldarvinnslan eignaðist svo Frera árið 2015 og nefndi skipið Blæng NK .

Í mars 2016 sigldi Blængur NK til Gdansk í Póllandi þar sem skipið var meðal annars sandblásið og málað , vistarverur endurnýjaðar , sett var hliðarskrúfa á skipið og unnið að öðru viðhaldi. 

 

19.07.2017 22:30

Bylgja VE 75

Hér er Bylgja VE 75 við bryggju í Vestmannaeyjum en myndi er tekin 29.júní en þá var nýbúið að landa úr Bylgju VE rúmum 20 tonnum .

Bylgja VE 75 var smíðuð árið 1992 hjá Slippstöðinni á Akureyri og er 33,74 m á lengd og  8,6 m á breidd.

 

18.07.2017 12:45

Sigurður VE 15

Sigurður VE 15 er glæsilegt skip en myndina tók ég í júní mánuði þegar að ég fór með syni mínum á fótboltamót í Vestmannaeyjum. Sig­urður VE er 3763 lesta upp­sjáv­ar­skip, 80,3 metr­ar á lengd og 17 metr­ar á breidd.  Aðal­vél er af gerðinni Wartsila 9L32, 4.500 kW en skipið var smíðað í Tyrklandi árin 2013-14 og kom til heimahafnar í júlí 2014.

 

 

13.07.2017 16:50

Málmey , Klakkur og Farsæll

Þiðrik Unason tók þessa mynd í fyrradag og sendi mér en á henni má sjá Málmey SK 1 , Klakk SK 5 og Farsæl SH 30

Mynd : Þiðrik Unason

 

11.07.2017 21:00

Oddur á Nesi SI 76 seldur !

Útgerðarfélagið BG Nes á Siglufirði hefur selt línubátinn Odd á Nesi SI 76 og er nýr eigandi bátsins Blikaberg ehf.  Oddur á Nesi var afhentur nýjum eigendum á sunnudaginn og er kominn til Sandgerðis þar sem hann liggur nú við bryggju.

Oddur á Nesi SI var smíðaður hjá Seiglu á Akureyri og var sjósettur í desember 2016 og kom til heimahafnar 14 janúar síðastliðinn.

Við söluna tók BG Nes línubátinn Huldu HF 27 upp í og mun sá bátur fá nafnið Oddur á Nesi.

 

06.07.2017 22:30

Gullhólmi SH 201

Gullhólmi SH 201 kom norður í júní og landaði fimm sinnum á Siglufirði , ágætis afla eða tæpum 60 tonnum .

Gullhólmi hélt svo heim á leið í enda júnímánaðar og landaði 13,5 tonnum á Patreksfirði og er nú kominn í slipp í Stykkishólmi . 

 

20.06.2017 12:00

Múlaberg SI & Sóley Sigurjóns GK landa á Siglufirði

Landað var úr Múlaberg SI í gærmorgun rúmlega 20 tonnum af rækju og tæplega 10 tonnum af fiski . 

Rækjan fer í vinnslu hjá Ramma hf á Siglufirði en fiskurinn fór í sölu á Fiskmarkað Siglufjarðar.

 

Sóley Sigurjóns GK er byrjuð á rækju og landaði tvívegis fyrir sjómannadag  , í Grundarfirði og í Sandgerði en er núna komin norður fyrir land og landaði á Siglufirði í gær um 35 tonnum af rækju sem fer í vinnslu hjá Meleyri á Hvammstanga og 15 tonnum af fiski sem fluttur var suður í vinnslu.

 

19.06.2017 21:30

Tómas Þorvaldsson GK 10 landar á Siglufirði

Eftir frekar rólega mánuði er farið að aukast lífið á bryggjunum á Siglufirði . Tómas Þorvaldsson GK kom inn til Siglufjarðar í gærmorgun og landaði góðum afla og er væntanlegur aftur á miðvikudaginn. Strákarnir hjá Jón & Margeir sáu um að flytja aflann suður til vinnslu hjá Þorbirni hf.

Hér fyrir neðan má sjá þrjár myndir frá því í gærmorgun.

 
 
 

16.06.2017 11:25

Erling KE 140

Þiðrik Unason tók þessa mynd í byrjun mánaðarins af Erling KE 140 í Dalvíkurhöfn en Erling KE er gerður út á grálúðunet af Útgerðarfélagi Akureyrar þessa dagana.

Mynd : Þiðrik Unason

 

13.06.2017 11:15

Bræðurnir Oddur á Nesi og Óli á Stað

Yfir sjómannadagshelgina lágu bræðurnir Oddur á Nesi SI og Óli á Stað GK saman við bryggju á Siglufirði . 

Ég ætlaði að ná betri myndum af bátunum saman en kom því ekki í verk í tæka tíð áður en Óli á Stað hélt til í gærkveldi .

 

Nafn: ODDUR Á NESI // ÓLI Á STAÐ
Skráningarnr: 2912 // 2842
Brúttótonn: 29,37 t // 29,95 t
Skráð lengd: 11,99 m // 13,17 m
Smíðað: 2016 Seigla // 2017 Seigla 

12.06.2017 12:30

Sjómaður heiðraður : Páll Gunnlaugsson

Í gær á Sjómannadeginum á Siglufirði var athöfn á Rammatúni þar sem blómsveigur var lagður að minnisvarða um drukknaða sjómenn og að því búnu Páll Gunnlaugsson heiðraður fyrir sjómannsferil sinn. Hann er fæddur 28. febrúar 1936 og því orðinn 81 árs gamall.

Stúlkur úr Slysavarnardeildinni Vörn sáu um að leggja blómsveginn við minnisvarðann.

 

Sr. Sigurður Ægisson

 

Sigrún Sigmundsdóttir leggur blómsveiginn við minnisvarðann.

 

 

 

Sigurður Ægisson , Katrín Andersen og Páll Gunnlaugsson

 

Páll Gunnlaugsson byrjaði á línubát frá Reykjavík þegar hann var 17 ára og fljótlega fór hann sem háseti á togarann Elliðaey frá Vestmannaeyjum. Hann lauk 120 tonna réttindanámskeiði í Borgarkaffi á Siglufirði, hjá Guðmundi Arasyni frá Sjómannaskólanum.

Það einkennir sjómannaferil Páls, að hann hefur víða komið við sögu á margs konar fiskiskipum. Eitt sumar var hann á mb. Garðari frá Patreksfirði, sem nú er hafður til sýnis í fjörunni í Skápadal þar vestra. Garðar er elsti stálbátur Íslendinga, smíðaður í Noregi árið 1912. Mörg sumur var Páll á síld, t.d. á Hólmanesi frá Eskifirði sem var 250 tonna fley, smíðað í Austur-Þýskalandi. Vetrarpart var Páll á togaranum Austfirðingi og síðan oft á Hafliða SI 2 á sumrin, en á Þorsteinni Ingólfsyni RE 206 á veturna. Upp úr 1960 gerðist Páll háseti á Hafliða SI 2 og var í áhöfn allar götur þar til togaranum var lagt við Hafnarbryggjuna árið 1972.
 

Katrín Andersen , Hulda Katrín Hersteinsdóttir og Páll Gunnlaugsson

 

Páll hóf árið 1973 ásamt fleirum útgerð Jökultinds, 15 tonna báts. Stóð hún til 1979 og voru ýmsar veiðar stundaðar.

Í apríl 1974 kom Sigluvík, sem smíðuð var á Spáni, til Siglufjarðar og var Páll ýmist annar stýrimaður eða háseti á því skipi í nokkur ár.

Páll var lánsamur til sjós og minnist ekki neinna slysa um borð, þó stundum hafi legið nærri, eins og t.d. árið 1985 þegar hann var stýrimaður á Sveinborginni sem Sæmundur Árelíusson gerði út. Skipið var þá á leið til Englands undir skipstjórn Hjalta Björnssonar, þegar það fékk á sig brotsjó austur af Vestmannaeyjum. Brotið gekk í gegnum brúna og gerði svo til öll tæki ónothæf. En skipið komst inn til Vestmannaeyja og eftir lagfæringar var ferðinni haldið áfram.

Sjómennska Páls endaði á rækjubátnum Ögmundi sem var í eigu þáverandi eigenda Sigló, sem einnig gerðu út rækjuskipið Helgu.

Þegar í land var komið hóf Páll störf á netaverkstæðinu á Siglufirði og vann þar til hann settist í helgan stein 69 ára gamall.

Eiginkona Páls er Stella Minný Einarsdóttir og börn þeirra eru Ólafur Þór, Ásdís Vilborg, Gunnlaugur, Ásgrímur, Sigurjón og Róbert.

 

 

 

Sveinn  Björnsson , Sigurður Ægisson og Páll Gunnlaugsson

11.06.2017 14:00

Sjómannadagskveðja

skoger.123.is sendir öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra hátíðarkveðjur í tilefni af sjómannadeginum !

 

Flettingar í dag: 479
Gestir í dag: 98
Flettingar í gær: 711
Gestir í gær: 99
Samtals flettingar: 2226089
Samtals gestir: 515002
Tölur uppfærðar: 19.9.2017 22:18:58

Nafn:

Guðmundur Gauti Sveinsson

Farsími:

868-9333

Afmælisdagur:

25.08.1983

Heimilisfang:

Hávegur 26

Staðsetning:

Siglufjörður

Tenglar