03.10.2014 15:10

Knörrinn ÞH

Ég hef ekki farið leynt með dálæti mitt á gömlum eikarbátum og í dag sjáum við mynd af Knerrinum sem Norðursigling gerir út í hvalaskoðun frá Húsavík.

Á vef Norðursiglingar segir " Knörrinn var fyrsti báturinn á Íslandi til að fara í áætlunarferðir í hvalaskoðun. Hann var byggður á Akureyri árið 1963 og hefur allt tíð síðan reynst hið mesta happafley. Knörrinn hefur marga hildi háð og stóð meðal annars af sér hið fræga „apríl veður“ 1963 þegar hann var mánaðargamall á veiðum norður af landinu. Í þessu sama veðri fórust bátar og skip og með þeim 16 sjómenn. 1968 var honum siglt á ísjaka á fullri ferð en það, sem og annað, stóð hann af sér og er það spurning hvort að það sé gullpeningi sem settur var undir formastrið við smíði bátsins að þakka eður ei. Knörrinn kom til Húsavíkur árið 1994 og var endurnýjaður um veturinn. Síðan 1995 hefur Knörrinn siglt óslitið í hvalaskoðun um Skjálfandaflóa. "

 

Við skulum vona að Haukur splæsi í miða fyrir okkur um sögu bátsins ?

02.10.2014 15:00

Tvær gamlar : Gullver NS 12 (1216)

Það mátti lesa á mörgum vefmiðlum í gær um kaup SVN á Gullbergi ehf á Seyðisfirði . Gullberg ehf gerir út togarann Gullver NS 12 sem smíðaður var í Noregi árið 1983 . Í myndasafni föður míns eru myndir af forvera hans með sama nafni , teknar á Siglufirði líklegast á árunum 1970 -1980.

Ég birti þessar myndir í fyrra , 14.apríl , og setti Haukur Sigtryggur miða í athugasemdakerfið og mátti lesa þar " Smíðaður í Danmörk 1968 hét Tok þegar Seyðfirðingar kaupa hann og nefna Gullver NS 12 síðan er hann seldur til Noregs en endar í Namibíu þaðan fer hann til Suður-Afríku og heitir þá Globe Trawler. Á síðunni hann Triggva Sig. 18.03.2012 eru myndir af honum í S-Afríku þar sem virðist vera að rífa hann og er hann þar kominn með nafnið Gullver. "

Mynd úr safni Sveins Björnssonar

 

Mynd úr safni Sveins Björnssonar

 

01.10.2014 13:30

Múlaberg SI 22 - Fagurt og fínt í slipp á Akureyri

Ég birti hér á dögunum mynd af Múlaberginu (Sjá HÉR) og sagði frá því að það væri komið í slipp á Akureyri. Nú er búið að mála skipið , öxuldraga , skipta um krana og taka upp aðalvélina , ásamt ýmsum öðru viðhaldi sem þurfti að sinna . 

Áætlað var að Múlabergið héldi á ný til veiða núna um mánaðarmótin en að öllum líkindum verður einhver seinkun á því.

Mynd : Bragi Guðnason

Múlaberg SI var smíðað í Japan árið 1973 og bar áður nafnið Ólafur Bekkur ÓF

 

30.09.2014 12:10

Kristrún RE 177

Það fjölgar alltaf skipunum sem landa á Siglufirði , því í gærmorgun kom Kristrún RE 177 til löndunar . Voru aflabrögð með ágætum , líklegast á bilinu 45 - 50 tonn eftir um 4 lagnir.

Síðasta haust og fram á vetur landaði Kristrún RE 10 sinnum á Siglufirði , frá 29. september til 25. nóvember.

 

 

 

 

29.09.2014 19:25

Ægishetjur

Þeir leynast víða , sannir íslenskir listamenn , þótt þeir séu ekki á spena hjá ríkinu . Á Ólafsfirði býr ljóðskáld gott, Ingi Jóhannesson, fyrrverandi sjómaður og kennari. Ég rakst á ljóðið Ægishetjur á vafri mínu um netheima um daginn og hef fengið góðfúslegt leyfi hjá Inga til þess að birta það hér á vefsíðunni . Um tilurð ljóðsins segir Ingi " Ægishetjur er ljóð sem ort er um skipsskaða á Snæfellsnesi, á 19. öld. "

Ægishetjur.

Sú var tíð að sultur var,
sjávarfang ei auðsótt þótti.
Hafísböl að landi bar,
brustu vonir, efldist ótti. 

 

Í djúpi óttans dvelur ljós,
döprum huga, stoð og stytta.
“Fara verðum senn til sjós,
sjálfir munum örlög hitta.”

 

Frá vör í landi velt var bát,
veður ei var þungt né þrútið.
Formaður þar fór með gát,
“Fögnum lífi.... Guði lútið”.

 

Með árar átta, níu menn,
áfram réru, út var haldið.
Lífs í hörðu héldu senn,
á heljar mið, í dauðans valdið.

 

 Lífsins velta, veðraok,
vindar blása, herða drenginn.
Öldur brotna, beljar rok,
“byrgja skulum sjávarfenginn.”

 

Heim var haldið, helju frá,
hoknir menn og hvíldarstundin.
Ei var lundin grett né grá,
gleðin sterk því björg var fundin.

 

“Hífa skulum vindavoð,
veljum stefnu, hlés við báru.
Forðast munum brim og boð,
bætum brátt úr hungri sáru.”

 

En sjávarguð ei sáttur var,
sækja vildi hetjur harðar.
Bylmingsalda að bátnum bar,
braut hann niður, þóftur marðar.

 

“Á meðan brotnar brim við sand,
brosum drengir, græðum sárin.
Sterkir stöndum stormagrand,
steytum hnefa, þerrum tárin.”

 

Höfundur : Ingi Jóhannesson 

 

Þó að þessi vefsíða sé aðallega hugsuð sem myndasíða , með myndum af bátum og skipum , getur verið gaman að breyta til og fá inn annað efni tengt íslenskum sjávarútvegi . Á næstunni mun ég birta gömul skjöl sem ég hef fengið og skannað. Þar má sjá ýmsa gullmola , svo sem skjal frá Tollgæslunni , skjöl frá fyrstu söluferð Elliða SI (en þau hafa birtst áður á togarar.123.is) ásamt ýmsum fleiri skjölum.

28.09.2014 11:25

Brælumyndir teknar um borð í Gnúp GK

Í dag leitum við í myndasafn Sigurjóns Veigars vélstjóra á Gnúp GK og fáum að sjá nokkrar brælumyndir sem hann tók í september túrnum.

Það er gaman fyrir okkur landkrabbana að fá sjá svona "skvettumyndir" eins og Sigurjón orðaði það .

 

 

 
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég þakka Sigurjóni vel fyrir myndirnar . 

27.09.2014 12:10

Náttfari ÞH

Ég hef ekki farið leynt með dálæti mitt á gömlum eikarbátum og í dag sjáum við mynd af Náttfara sem Norðursigling gerir út í hvalaskoðun frá Húsavík.

Á vef Norðursiglingar má m.a. lesa " Náttfari var byggður í Stykkishólmi árið 1965 og er dæmigerður síldarbátur frá sjötta og sjöunda áratugnum, en síðar var hann á línu, netum og togveiðum. Báturinn var gerður út til 1990 en lá svo í reiðuleysi á Reyðarfirði allt þar til Norðursigling festi kaup á honum árið 1998. Veturinn ’98-’99 var hann svo gerður upp og meðal annars innréttaður veitingasalur fyrir 50 manns í lestinni á honum.  "

 

Ætli Haukur eigi ekki miða um Náttfara sem hann er tilbúinn til þess að deila með okkur ?

26.09.2014 17:35

Eyji NK 4

Þiðrik vinur minn Unason er duglegur að senda mér myndir og hér sjáum við tvær myndir sem hann tók í sumar af Eyja NK 4. Samkvæmt vef Fiskistofu er Eyji NK gerður út á Hörpudiskplóg og landaði Eyji 728 kg af Kúfisk / Kúskel á síðasta fiskveiðiári.

Mynd : Þiðrik Unason

 

Mynd : Þiðrik Unason

 

25.09.2014 16:15

Rifsnes SH 44

Rifsnes SH 44 kom inn til Siglufjarðar um hádegisbilið í gær og landaði um 43 tonnum. Fór mestmegnis af aflanum vestur með Ragnari & Ásgeir til vinnslu hjá Hraðfrystihúsi Hellissands.

 

Rifsnes SH 44 var keypt frá Noregi síðasta haust en það leysti af skip með sama nafni sem var smíðað árið 1968.

24.09.2014 18:40

Sóley ÞH 28

Hér er Sóley ÞH 28 í Húsavíkurhöfn . Sóley ÞH var smíðuð hjá Bátasmiðju Guðmundar í Hafnarfirði árið 1993 og er gerð út á handfæri.

 

 

23.09.2014 12:30

Þorleifur EA 88

Þorleifur EA 88 hefur verið að gera það ágætt á netaveiðum núna á nýju kvótaári en Þorleifur EA hefur að mestu landað á Ólafsfirði.

 

Myndin er tekin að kvöldi í Ólafsfirði fyrir skömmu.

22.09.2014 13:00

Múlaberg SI 22 í slipp á Akureyri

Múlaberg SI hélt til Akureyrar í slipp á mánudaginn síðastliðinn en skipið landaði síðast 31. ágúst. Í millitíðinni var unnið í skipinu á Siglufirði þar sem meðal annars var skipt um krana. Áætlað er að skipið haldi á ný til veiða í kringum mánaðarmótin ef allt gengur samkvæmt áætlun. 

 

 

Nýji kraninn

 

Gamli kraninn

 

21.09.2014 12:20

Sóley Sigurjóns GK 200

Sóley Sigurjóns GK er komin norður fyrir land á rækjuveiðar að nýju. Hefur Sóley Sigurjóns landað tvívegis á Siglufirði í september og hefur rækjuaflinn verið um 20 tonn í hvorum túr.

 

Það er Nesfiskur í Garði sem gerir Sóley Sigurjóns út og fer rækjan til vinnslu hjá Meleyri á Hvammstanga.

20.09.2014 17:40

Lundey ÞH 350

Hér er Lundey ÞH 350 við bryggju á Húsavík . Í bakgrunni má sjá Gamla Bauk , veitingastað Norðursiglingar .

 

Lundey ÞH var smíðuð árið 1987 í Hafnarfirði.

19.09.2014 17:30

Gísli Súrsson GK 8

Hér er ein glæsileg mynd eftir Sigurjón Veigar Þórðarson , vélstjóra á Gnúp GK , af nýjasta bát Einhamars Seafood , Gísla Súrsyni GK 8.

Með myndinni mátti lesa "Nýja skip Einhamars Seafood, Gísli Súrsson að draga línuna á austfjarðamiðum"

Mynd : Sigurjón Veigar Þórðarson

 

Flettingar í dag: 479
Gestir í dag: 98
Flettingar í gær: 711
Gestir í gær: 99
Samtals flettingar: 2226089
Samtals gestir: 515002
Tölur uppfærðar: 19.9.2017 22:18:58

Nafn:

Guðmundur Gauti Sveinsson

Farsími:

868-9333

Afmælisdagur:

25.08.1983

Heimilisfang:

Hávegur 26

Staðsetning:

Siglufjörður

Tenglar