15.09.2014 10:00

Leki kom að Kalda SI í gær !

Seinnipartinn í gær kom leki að Kalda SI 23 sem gerður er út frá Siglufirði.  Olli lekinn rafmagnsbilun um borð og varð lensidælan óvirk og höfðu skipverjar ekki undan að dæla handvirkt. Var Kaldi um 13 sjómílur norðaustur af Siglufirði þegar að hann óskaði eftir aðstoð. 

Björgunarskipið Sigurvin er í slipp á Skagaströnd og fóru því björgunarsveitarmenn á Hafdísi SI með dælur til aðstoðar og fylgdu svo Kalda til hafnar, en komið var að bryggju um kl. 22:00.

Landað var úr Kalda í gærkveldi og vigtaði aflinn um 4,1 tonn .

Kaldi SI 23 kemur að bryggju í gærkveldi

 

Á vef Landsbjargar í gærkvöldi mátti lesa "Björgunarsveitir voru kallaðar út um klukkan 18:30 þegar leki kom að báti um 13 sjómílum norðaustur af Siglufirði. Báturinn var rafmagnslaus og því ekki hægt að dæla úr honum nema með handdælum um borð og hafði skipverjinn ekki undan. Björgunarskipið Sigurvin á Siglufirði er í slipp vegna viðhalds og fóru því tveir björgunarsveitamenn á trillu með dælur til móts við leka bátinn. Þeir fylgja honum nú til hafnar á Siglufirði en gert er ráð fyrir að ferðin taki hátt í tvo tíma. Aðrir björgunarbátar af svæðinu voru einnig kallaðir út en var snúið við þegar ljóst var að fyrstu dælurnar sem bárust á staðinn dugðu í verkið"

14.09.2014 13:25

Á makrílveiðum með Klakk SK - Stór myndasyrpa - Part II

Þiðrik Unason hefur verið duglegur að senda mér myndir í gegnum tíðina og um síðustu helgi sendi hann mér stórskemmtilega myndasyrpu sem hann tók 22. ágúst sl um borð í togaranum Klakk SK 5 , þegar að þeir voru á makrílveiðum. Samkvæmt vef Fiskistofu var aflinn 76.9 tonn af makríl og 2 tonn af síld.
Hér kemur seinni hluti myndasyrpunnar - Gjörið svo vel.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hluti áhafnar : Þórarinn, Snorri og Ingólfur

 

Sturtað úr pokanum

 

 

 

Davíð að hnita fyrir pokann

 

Kominn niður í lest

 

Magnús, Davíð, Pétur, Bjarni og Óskar

 

Ég þakka Þiðrik enn og aftur fyrir myndirnar og minni sjómenn sem og aðra á netfangið mitt , 580skoger@gmail.com , ef menn luma á myndum sem þeir eru tilbúnir til þess að leyfa öðrum að njóta hér á myndasíðunni.

13.09.2014 13:00

Á makrílveiðum með Klakk SK - Stór myndasyrpa - Part I

Þiðrik Unason hefur verið duglegur að senda mér myndir í gegnum tíðina og um síðustu helgi sendi hann mér stórskemmtilega myndasyrpu sem hann tók 22. ágúst sl um borð í togaranum Klakk SK 5 , þegar að þeir voru á makrílveiðum. Samkvæmt vef Fiskistofu var aflinn 76.9 tonn af makríl og 2 tonn af síld.

Seinni hluta myndasyrpunnar fáum við að sjá á morgun.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég vill þakka Þiðrik vel fyrir sendinguna ,  alltaf gaman fyrir okkur landkrabbana að fá sjá myndir sem teknar eru um borð í skipum og sýna lífið um borð.

12.09.2014 09:30

Örvar SH 777

Örvar SH hefur nú landað tvívegis á Siglufirði á síðustu dögum og hefur aflinn verið með ágætum.

Rifsnes SH og Gullhólmi SH eru einnig komin norður og lönduðu bæði á Siglufirði á miðvikudaginn.

 

Örvar SH er glæsilegt skip sem var smíðað í Noregi árið 1992.

11.09.2014 12:10

Tjaldur II ÞH 294

Það er alltaf gaman að mynda glæsilega báta og ég tala nú ekki um ef það eru glæsilegir eikarbátar . Við bryggju á Húsavík má sjá þá marga og meðal annars Tjald II ÞH 294 . Tjaldur II ÞH var smíðaður árið 1970 hjá Trésmiðju Austurlands á Fáskrúðsfirði.

 

Tjaldur II ÞH hefur áður borið nöfn eins og Ásborg BA , Neisti BA , Neisti ÍS og Neisti RE. 

10.09.2014 14:15

Víðir EA 423

Víðir EA 423 var einn af mörgum bátum sem stunduðu strandveiðar og gerðu út frá Siglufirði í sumar.

 

Glæsilegur bátur sem var smíðaður á árunum 2012 og 2013 .

09.09.2014 10:20

Hera ÞH 60

Hér er Hera ÞH 60 í Húsavíkurhöfn á dögunum . Í fyrra var Hera ÞH gerð út dragnót og rækju .

Hera ÞH var smíðuð árið 1962 í Flekkefjord í Noregi. Skipið var lengt árið 1982 og yfirbyggt 1987.

 

Hera ÞH hefur áður borið nöfn eins og Óli Hall HU , Hafberg GK og Guðrún Jónsson ÍS

08.09.2014 12:05

Hoffell II SU 802

Sjómönnum er ýmislegt til lista lagt og eitt af því er að taka myndir . Margir efnilegir ljósmyndarar eru sjómenn að atvinnu og einn af þeim heitir Sigurjón Veigar Þórðarson. Sigurjón er vélstjóri á Gnúp GK 11 og hef ég fengið leyfi til þess að birta myndir sem hann hefur tekið í gegnum tíðina á sjónum.

Við byrjum á því að sjá þrjár myndir af Hoffelli II SU 802 , en þessar myndir voru teknar á loðnuvertíðinni 2011 . 

Ég þakka Sigurjóni mikið fyrir og minni á netfangið , 580skoger@gmail.com, ef sjómenn vilja deila myndum sínum með mér og öðrum.

Mynd : Sigurjón Veigar Þórðarson

 

Mynd : Sigurjón Veigar Þórðarson

 

Mynd : Sigurjón Veigar Þórðarson

 

Til gamans má geta að afi Sigurjóns var Sigurjón Jóhannsson aflaskipstjóri , sem lengi var skipstjóri á Hafliða , Elliða og Sigluvík. Hann hefði orðið 85 ára í dag , en Sigurjón lést árið 2010

07.09.2014 15:20

Hafborg EA 152

Hér má sjá Hafborg EA 152 í Húsavíkurhöfn á dögunum. Frá kvótaáramótum hefur Hafborg verið á dragnót og landað á Húsavík.

 

Hafborg EA var smíðuð árið 1998 á Ísafirði.

06.09.2014 12:55

Ingólfur Arnarsson RE 201

Myndin hér fyrir neðan er af Ingólfi Arnarssyni RE 201. Hún er úr safni föður míns og er líklegast úrklippa. Ég veit ekki hver ljósmyndarinn er .

Ingólfur Arnarsson var fyrsti nýsköpunartogarinn sem við Íslendingar eignuðumst , kom til landsins í febrúar 1947 og var að lokum seldur í brotajárn árið 1974.

 

Á vef Ljósmyndasafns Reykjavíkur má lesa um Ingólf Arnarsson RE "Í dag hefur mikill viðburður gerst í sögu Reykjavíkur og landsins alls. Fullkomnasta fiskiskip þjóðarinnar hefur lagst við landfestar á Íslandi. Það er fyrsta skip hins fyrirheitna lands nýsköpunar atvinnulífsins og munu mörg eftir fara. Höfuðborg landsins á þetta skip og mun gera það út. Reykjavík verður heimili þessa fyrsta landnema nýsköpunarinnar, Ingólfs Arnarsonar, eins og það var Reykjavík, sem var heimili og aðsetur fyrsta landnámsmannsins, Ingólfs Arnarsonar. … —Úr ræðu Gunnars Thoroddsen borgarstjóra að þessu tilefni. "

05.09.2014 10:45

skoger.123.is 2 ára

Í dag 5 september eru tvö ár síðan að fyrsta færslan birtist á skoger.123.is . Fjallaði hún um nafngift síðunnar og má lesa meira um það HÉR. Segja má þó , að formlegur stofndagur hafi verið að kvöldi 4 september þegar að ég skráði lénið og sló inn fyrstu stafina til þess að prófa kerfið.

 

Fyrir ári síðan þegar að ég birti pistil um árs afmæli síðunnar mátti lesa "Færslurnar eru orðnar yfir 450 og gestafjöldinn samkvæmt teljara síðunnar er kominn yfir 67.000 gesti , sem gera um og yfir 180 gesti á degi hverjum " 

Á tveggja ári afmælinu eru færslurnar orðnar um 840 og gestirnir komnir yfir 166.000 samkvæmt teljara síðunnar , má því segja að gestafjöldinn hafi verið um 270 að jafnaði á dag síðasta árið.

Í fyrra opnaði ég Facebook síðu sem heitir " Skoger Skipa og bátamyndir " en þar birtast m.a margar myndir af sjómönnum og öðrum tengdum stéttum , sem hafa ekki allar verið birtar hér á síðunni og eru þær orðnar vel yfir tvöhundruð og er alltaf að bætast við.

Hvet ég alla lesendur síðunnar sem eru með Facebook aðgang til SMELLA HÉR og gerast "vinur" síðunnar á Facebook. Á myndasíðan um 750 vini á Facebook og fer þeim fjölgandi dag frá degi. 

Kveðja,  

Guðmundur Gauti Sveinsson

04.09.2014 11:25

Varðskipið Ægir á Siglufirði

Varðskipið Ægir kom inn til Siglufjarðar í gær og hífði í land tvö öldudufl sem verið var að skipta um , á Drangsnesi og Straumnesi.

Ægir er glæsilegt skip , smíðað árið 1968 í Danmörku. Á vef Landhelgisgæslunnar , www.lhg.is , má lesa mikinn fróðleik um Ægi með því að smella HÉR

 

 

 

 

 

Duflin komin í bíl . 

 

Þann 25. janúar síðastliðinn mátti sjá mynd af gamla Ægi hér á myndasíðunni.

03.09.2014 11:25

Hafdís SI 131 með í skrúfunni - Myndasyrpa

Þann 28 ágúst síðastliðinn kom Hafdís SI að bryggju á Siglufirði með í skrúfunni en Hafdís var á leið á Hornbankann þegar að atvikið skeði en það var Toni EA sem dró Hafdísi í land .

Eins og sjá má á myndunum var þetta ágætis kaðall sem festist í skrúfunni hjá Hafdísi en engar skemmdir urðu á bátnum.

 

 

 

 

 

 

 

Starfmenn Siglufjarðar Seigs mættir til að skera úr skrúfunni.

 

02.09.2014 09:10

Kaldi SI 23 - Góður afli af Hornbanka

Þrír bátar hafa gert út frá Siglufirði síðustu daga á Hornbankann á færum . Kaldi SI 23 er einn þeirra og hefur aflinn verið góður. Í fyrsta róðri var aflinn 3,4 tonn , næst 5,4 og á sunnudaginn vigtaði aflinn 4,6 . Gera þetta rúm 13,4 tonn.

 

Á vefnum Aflafréttir.is má sjá lista síðan 30.ágúst og á honum er Kaldi SI í 27 sæti í flokknum bátar að 15.BT með 13 róðra.

01.09.2014 12:20

Þinganes SF 25

Þinganes SF 25 landaði á Siglufirði á fimmtudaginn og aftur um hádegisbilið á laugardaginn.

Samkvæmt Marine Traffic var Þinganesið komið að bryggju á Húsavík á laugardagskvöldið, en í hvaða tilgangi er mér ekki kunnugt um.

 

 

Flettingar í dag: 225
Gestir í dag: 48
Flettingar í gær: 292
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 2491567
Samtals gestir: 546530
Tölur uppfærðar: 19.1.2019 21:28:27

Nafn:

Guðmundur Gauti Sveinsson

Farsími:

868-9333

Afmælisdagur:

25.08.1983

Heimilisfang:

Hávegur 26

Staðsetning:

Siglufjörður

Tenglar